Hæstiréttur hefur dæmt Hlífar Vatnar Stefánsson í sextán ára fangelsi fyrir að bana unnustu sinni í febrúar í fyrra. Hæstiréttur hefur þar með staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness fyrir Hlífari, sem féll í júlí í fyrra.
Hlífar Vatnar játaði að hafa orðið unnustu sinni, Þóru Eyjalín, að bana á heimili föður síns í Hafnarfirði á tímabilinu frá síðdegis á fimmtudeginum 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar. Sökum vímuefnaneyslu var ekki hægt að tímasetja manndrápið frekar, en ljóst þykir að Hlífar Vatnar hafi deilt herbergi með líki Þóru í alla vega sólarhring.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að af áverkum á líki hinnar látnu og ummerkjum á vettvangi brotsins verði ráðið að Hlífar hafi haft einbeittan ásetning til að ráða henni bana. Hann hafi tilkynnt lögreglu fyrst um verknaðinn eftir að hún hafði að öllum líkindum verið látin í þrjá daga af völdum áverkanna sem hann hafði veitt henni.
„Þótt mikil og langvarandi neysla ákærða á fíkniefnum kunni að hafa verið meginorsök verknaðarins og þess, hversu seint hann gaf sig fram við lögreglu, hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið, sbr. 17. gr. og 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður enda ekki ráðið af gögnum málsins að hann hafi iðrast gerða sinna. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur,“ segir í dómi Hæstaréttar.
„Ég ætlaði engan veginn að drepa þessa manneskju. Ég vaknaði bara og þá var þetta búið að ske,“ sagði Hlífar Vatnar við aðalmeðferð í málinu. Á Þóru fundust varnaráverkar en einnig áverkar sem bentu til þess að hún hefði verið hætt að verja sig, þar á meðal stunga sem beindist að hjarta. Alls var um þrjátíu stungur að ræða.
Geðlæknir staðfesti það fyrir dómi að vel gæti staðist að Hlífar Vatnar hefði lent í umræddu óminnisástandi. Hann hefði verið gríðarlegur fíkill og þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hann færi í ástand sem þetta.
Hlífari er gert að greiða kröfuhöfum málskostnað fyrir Hæstarétti, hverjum um sig 75.000 krónur. Þá skal hann greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 597.831 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns 439.250 krónur.