Skila bráðabirgðaáliti í lok janúar

Jan Helgesen, til vinstri, og Thomas Markert, til hægri, á …
Jan Helgesen, til vinstri, og Thomas Markert, til hægri, á blaðamannafundinum í kvöld. Morgunblaðið/Golli

Feneyjanefndin stefnir að því að skila bráðabirgðaáliti um stjórnarskrárfrumvarpið í lok þessa mánaðar. Þetta kom fram í máli Jan Helgesen, varaformanns Feneyjanefndarinnar, á blaðamannafundi sem haldinn var í húsnæði nefndasviðs Alþingis við Austurstræti 8-10 um sexleytið í kvöld.

„Við vitum að ferlið hér á Íslandi er viðkvæmt. Við þekkjum sorglega sögu íslenska efnahagshrunsins og við vitum að það eru hópar hér á landi sem hafa mikinn áhuga á því að breyta stjórnarskránni í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þessi harmleikur endurtaki sig,“ sagði Helgesen og bætti við: „Við höfum enga skoðun á þessu. Við getum ekki sagt að það sé stjórnarskránni að kenna að þetta gerðist. Við skiptum okkur aldrei af svona pólitískum málefnum heldur takmörkum við okkur ávallt við það að svara þeim lögfræðilegu álitaefnum sem við erum beðin um að skoða.“

Thomas Markert, ritari Feneyjanefndarinnar, sagði á fundinum að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að segja Íslendingum til um hvort þeir ættu að breyta núverandi stjórnarskrá eða ekki. „Okkar verkefni er það að fara yfir frumvarpið og leggja síðan fram úrbótatillögur. Okkar verkefni er ekki það að segja Íslendingum hvort þeir eigi að taka upp nýja stjórnarskrá, breyta núverandi stjórnarskrá eða halda öllu óbreyttu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka