Hjón í Kópavogi voru í dag dæmd til að fella tvö grenitré við lóðarmörk. Þau töpuðu málinu í héraðsdómi og þurftu að greiða 950 þúsund krónur í málskostnað. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti og gerði rétturinn þeim að greiða 550 þúsund til viðbótar í málskostnað.
Þessi umdeildu grenitré voru gróðursett stuttu eftir að íbúar við Víðihvamm í Kópavogi reistu hús sitt árið 1961. Trén eru núna um 18 metrar á hæð og stendur efra tréð, sem er nær götu, 2,00 metra frá lóðarmörkum inn á lóð nágranna þeirra en neðra tréð 2,30 metra frá lóðarmörkum inn á lóðina, að því er fram kemur í gögnum málsins. Á milli trjánna eru 2,90 metrar. Greinar efra trésins slúta frá lóðarmörkum 2,40 metra inn á lóðina þar sem konan sem kvartaði undan trjánum býr en greinar neðra trésins teygja sig 1,90 metra inn á lóð hennar.
Konan, sem vill losna við trén, fékk árið 2006 leyfi hjá Kópavogsbæ til að byggja sólpall við norðvesturhorn hússins. Konan hélt því fram fyrir dómi að hæð trjánna gerði það að verkum að nær algjörlega skyggi fyrir dagsbirtu og sól á verönd og vesturhluta lóðar eftir kl. 14.30 á daginn yfir sumarið. Hún segir þetta valda henni verulegum og viðvarandi óþægindum.
Hjónin sem gróðursettu trén byggðu vörn sína á því að réttur þeirra í þessu máli væri sterkari vegna þess að trén voru fyrir þegar konan keypti íbúð sína árið 2005 og byggðu sólpallinn ári síðar.
Hæstiréttur segir í dómi sínum að grenitrén séu konunni til verulegra óþæginda og langt umfram það sem hún þyrfti að þola samkvæmt ólögfestum reglum nábýlisréttar. Ekki var talið unnt að draga úr þessum óþægindum með öðru móti en að fjarlægja trén og var nágrönnum hennar gert að gera það að viðlögðum dagsektum.