Kostnaður vegna hreinsunar eftir strand Goðafoss á Óslóarfirði 17. febrúar fyrir ári er í norskum fjölmiðli sagður nema 88 milljónum norskra króna eða rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna.
Fylkisstjórnir við Óslóarfjörð komu saman til fundar í morgun til þess að ræða um fyrirkomulag öryggis- og umhverfismála í firðinum.
Fram kom á fundinum samkvæmt fréttavefnum Tb.no að kostnaður vegna hreinsunar eftir strand Goðafoss, gámaflutningaskips Eimskips, á Óslóarfirði 17. febrúar fyrir ári næmi 88 milljónum norskra króna eða rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna. Norsk yfirvöld hafa nú sent reikninginn til tryggingafélags Eimskips samkvæmt fréttinni.
Ólafur Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segist ekki geta staðfest þessa tölu enda hafi hún ekki komið inn á borð hjá fyrirtækinu. Um sé að ræða tryggingamál og sé leyst á milli tryggingafélags Eimskips og norskra yfirvalda.