Lögreglan á Selfossi gerði húsleit á heimili í Hrunamannahreppi í bítið í morgun og lagði hald á 170 lítra af eimuðum landa. Eins fundust 800 lítrar af gambra en bruggunin hafði eitthvað mistekist því ekkert áfengi mældist í gambranum.
Samkvæmt upplýsingum frá vaktstjóra í lögreglunni á Selfossi fékk lögreglan upplýsingar um landaframleiðsluna í gær og var farið á bæinn snemma í morgun þar sem framleiðslan var.
Einn var handtekinn á staðnum og hefur hann játað að hafa staðið að framleiðslunni. Það er hins vegar lán í óláni fyrir manninn að ekkert alkóhól var í gambranum því það þýðir að hann verður ekki ákærður fyrir þann hluta framleiðslunnar, að sögn lögreglu enda ekkert ólöglegt að vera með mjöð í potti heima hjá sér.