Dularfullar blæðingar halda áfram

Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós í gær.
Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós í gær. Ljósmynd/Hjalti Sig

„Maður bara rífur upp klæðninguna. Þetta festist á dekkjunum og fer upp í hjólaskálarnar. Síðan er þetta að skjótast af dekkjunum hér og þar,“ segir Jón Ragnar Ólafsson, bílstjóri hjá Guðmundi Tyrfingssyni, sem fór um þjóðveg 1 í gær frá Víðigerði að Blönduósi, en á þeim kafla segir Jón Ragnar að ástandið sé slæmt og klæðningin valdi ökumönnum vandræðum.

Litlar skýringar finnast á ástandinu

Mbl.is fjallaði um þessar dularfullu blæðingar á veginum síðastliðinn föstudag og síðan hafa borist ljósmyndir frá vegfarendum sem hafa lent í ógöngum vegna ástandsins. Litlar skýringar virðast vera á ástæðum þessa, en í samtali við lögregluna á Blönduósi í dag kom fram að einhverjar hugmyndir væru uppi hjá Vegagerðinni um að þetta væri af völdum efna sem hefðu verið borin ofan í veginn.

„Kastast af dekkjunum hægri vinstri“

„Maður er að taka klæðningu nánast alla leiðina og svo kastast þetta hér hægri vinstri og upp í hjólaskálarnar og læti í bílunum,“ segir Jón Ragnar og bætir við að allir ökumenn hljóti að hafa orðið varir við þetta sem hafi keyrt þarna um á þessum tíma.

„Maður átti kannski von á að sjá þetta í miklum hita en ekki á þessum árstíma,“ segir Jón Ragnar.

Tveir vegfarendur kvörtuðu við lögreglu í gær

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Blönduósi hefur helst verið kvartað yfir þessu ástandi þjóðvegarins í Hrútafirði og í Langadal, en tveir vegfarendur sem fóru um Langadal höfðu samband við lögregluna í gær. Engar kvartanir hafa borist í dag, enda mun kaldara í dag en í gær.

Frá Víðidalsá að Staðarskála í dag

Jón Ragnar segir ástandið á veginum í dag vera eins og í gær, en hann er á ferð á svæðinu. Nú segir hann ástandið þó á stærri kafla eða frá Víðidalsá að Staðarskála.

Svona var ástandið á hjólbörðum rútubifreiðar Guðmundar Tyrfingssonar við Blönduós …
Svona var ástandið á hjólbörðum rútubifreiðar Guðmundar Tyrfingssonar við Blönduós í gær. Ljósmynd/Jón Ragnar
Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós í gær.
Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós í gær. Ljósmynd/Hjalti Sig
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert