Benedikt Eyjólfsson, eigandi Bílabúðar Benna, hefur verið ákærður fyrir að hafa ekki skilað ársreikningum fyrirtækisins frá árinu 2006 til ársins 2010 á tilsettum tíma. Á hann yfir höfði sér refsingu fyrir brot sitt.
Á morgun verður fyrirtaka í máli sérstaks saksóknara gegn Benedikt og Bílabúð Benna. Samkvæmt ákæru í málinu er um meiriháttar brot að ræða gegn ársreikningalögum og teljast brotin varða við 262 gr. almennra hegningarlaga. Viðurlög við brotum sem þessum geta varðað fangelsi allt að sex árum. Heimilt er að dæma fésekt að auki.
Í ákæru er þess krafist að Benedikt verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.