Vegurinn að flettast upp

„Þetta er engin smá blæðing, vegurinn er bara að flettast upp,“ segir Arnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri flutningsfyrirtækisins Nesfraktar. Átta bílar fyrirtækisins eru hreinlega tjörulagðir eftir að hafa ekið um Austur-Húnavatnssýslu þar sem skemmdir eru í malbiki. Arnar segir tjónið mikið og áhöld um hver bæti það.

Átta bílar Nesfraktar komu í hús í Reykjavík í dag eftir að hafa lagt upp frá Akureyri snemma í morgun. Arnar segir bílstjóra hafa orðið vara við tjörublæðingarnar frá Öxnadalnum og nánast alveg niður í Hrútafjörð.

Brotin bretti undan tjöruklumpum

Slíkar blæðingar í malbiki, þegar tjaran lekur upp í gegnum klæðninguna, eru ekki óþekkt fyrirbæri og hafa áður valdið tjóni á Norðurlandi, s.s. sumarið 2007 þegar margir bílar urðu fyrir skemmdum en þá var skýringuna í finna í miklum lofthita og þungri helgarumferð. Arnar segir bíla Nesfraktar áður hafa lent í tjörublæðingu.

„En ekki svona rosalega slæmri. Við höfum áður tekið svona á okkur bara en nú er þetta farið að skemma tækin, þetta er bara alveg skelfilegt.“ Að sögn Arnars hafa brettin á bílunum brotnað undan tjörunni en að auki fer mikill kostnaður í að hreinsa bílana, bæði vinnustundir og efni. „Þetta eru nokkur hundruð lítrar af vöruhreinsi og ansi margir klukkutímar sem fara í að ná þessu af tækjunum.“

Hundraða þúsunda króna tjón

Nesfrakt er með verkstæði í höfuðborginni þar sem bílarnir eru í hreinsun í kvöld og sagði Arnar tjörudrulluna leka um öll gólf. „Við erum á fullu að tjöruþvo en svo sendum við bílana aftur af stað á morgun og þurfum bara að vona að þetta fari ekki aftur svona. Við erum með daglega vöruflutninga sem við getum ekki hætt og bílarnir sem fara norður verða að fara þessa leið.“

Arnar telur tjónið nema rúmri milljón eða allt að einni og hálfri milljón króna og óttast að það muni hækka enn frekar haldist ástandið áfram. Hann segir engin svör hafa fengist enn um hvort tjónið sé bótaskylt. „Það bendir hver á annan. Ég er búinn að tala við Vegagerðina sem benti á Sjóvá og Sjóvá benti á Vegagerðina aftur.“

Einhverjar hugmyndir munu vera uppi um að tjörublæðingarnar stafi af efni sem borið var ofan í veginn, en hiti og raki geta einnig verið áhrifaþættir.

Dularfullar blæðingar

Dularfullar blæðingar halda áfram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert