Daníel hellir niður mjólkinni

Í rúmlega tvo mánuði hefur það verið eitt af daglegum verkum Daníels Jónssonar, bónda á Ingunnarstöðum í Reykhólasveit, að hella niður mjólk, en hann missti framleiðsluleyfi 12. nóvember. Framleiðslan er um 750 lítrar á dag og hún fer mestöll í niðurfallið.

Matvælastofnun gerði á síðasta ári athugasemd við eitt og annað hjá Daníel, m.a. þrifnað á mjaltaþjóni og þrifnað í mjólkurhúsi. Daníel segist hafa gert úrbætur, en viðurkennir að vegna erfiðar fjárhagsstöðu sinnar hafi hann ekki treyst sér til að ráðast dýrar endurbætur. Hann telur að Matvælastofnun hafi gengið allt of hart fram í þessu máli.

Daníel kærði ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta hann leyfi til atvinnuvegaráðuneytisins. Jafnframt óskaði hann eftir að hann fengi að selja mjólk meðan ráðuneytið væri að svara bréfinu. Því hafnaði ráðuneytið, en hann bíður hins vegar enn eftir efnislegu svar frá ráðuneytinu.

Daníel var lýstur gjaldþrota í nóvember 2011, en gjaldþrotið má m.a. rekja til fjárfestinga sem hann réðst í á árunum 2006-2007.

Daníel segist á árinu 2005 hafa fengið tilboð frá Landsbankanum um að bankinn væri tilbúinn til að fjármagna byggingu á nýju fjósi með tveimur mjaltaþjónum. Í framhaldi hafi hann keypt kvóta og fjölgað kúnum. Bankinn hafi síðar dregið í land með lánveitingar en fallist á að lána honum fyrir einum mjaltaþjóni.

Matvælastofnun hefur hafnað nýrri umsókn frá Daníel um framleiðsluleyfi vegna þess að hann eigi hvorki jörðina né bústofninn. Daníel er ósáttur við að Matvælastofnun blandi saman kvörtunum sínum við fjárhagsstöðu sína. „Mér finnst að ég hafi verið beittur miklu óréttlæti í þessu máli,“ segir Daníel.

Skiptastjóri þrotabúsins á Ingunnarstöðum segist hafa gefið honum og lögfræðingum hans góðan tíma til að finna lausn, en það hafi ekki tekist.

Nánar verður fjallað um þetta mál í Morgunblaðinu á morgun og á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka