Fresta afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarps

Stjórnskipunarnefnd að störfum.
Stjórnskipunarnefnd að störfum. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Stjórnarskrárfrumvarpið verður ekki afgreitt frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í dag eins og áður var stefnt að. Beðið verður eftir umsögnum þeirra þingnefnda sem enn eiga eftir að skila umsögnum um frumvarpið áður en það verður afgreitt úr nefndinni. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi eftirlits- og stjórnskipunarnefndar í morgun.

Til stóð að önnur umræða um frumvarpið gæti hafist á Alþingi á fimmtudag en ákvörðun nefndarinnar í morgun kemur í veg fyrir að svo verði. Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, vildi ekki tjá sig um hvenær frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni. Umsagnir væru að berast ein af annarri og farið yrði yfir þær áður en nefndin afgreiddi málið.

Hún sagðist sjálf þeirrar skoðunar að hægt væri að hefja aðra umræðu þó umsagnir allra þingnefnda hefðu ekki borist. En á fundum með fulltrúum stjórnarandstöðunnar í gær hefðu komið fram kröftug mótmæli á slíkri tilhögun. M.a. þess vegna hefði meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákveðið að bíða þess að umsagnir þingnefnda bærust áður málið yrði afgreitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert