Leikföng ætluð drengjum hvetja frekar til athafna en þau leikföng sem ætluð eru stúlkum. Vinsæl leikföng ætluð stúlkum hafa þróast í takt við klámvæðinguna og ekki er langt síðan farið var að kynskipta leikfangamarkaðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í lokaverkefni Steinrúnar Óttu Stefánsdóttur til BA-prófs við Listaháskóla Íslands, þar sem hún leggur stund á vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrsdeild skólans.
Steinrún athugaði barnaleikföng frá jafnréttissjónarmiði og hvernig þau hafa þróast.
„Leikföng sem eru sérstaklega ætluð stúlkum eru einfaldari og hvetja til minni virkni en þau sem eru sérstaklega ætluð strákum,“ segir Steinlaug. „Stelpurnar tapa á þessu fyrirkomulagi með því að fá einfaldari leikföng.“
Meðal þess sem hún athugaði í ritgerðinni er þróun Lego-kubbanna. „Lego-konurnar eru komnar með mjaðmir, brjóst og sítt hár, það er búið að kyngera þær á meðan karlarnir eru minna kyngerðir. Stelpu-Legoið er bleikar snyrtistofur en stráka-Legoið er uppfullt af hraða og spennu. Tækni-Legoið er sett í strákahillurnar í leikfangabúðunum, en ekki í stelpuhillurnar. Annars hefur Lego farið frá sinni upphaflegu stefnu. Fyrst voru þetta kubbar sem var hægt að búa allt mögulegt til úr, núna eru þetta tiltekin sett sem bara er hægt að setja saman á einn hátt,“ segir Steinrún.
En þetta er ekki það eina sem hefur breyst á leikfangamarkaðnum undanfarin ár. Að sögn Steinrúnar hafa sum vinsæl leikföng breyst þannig að sum þeirra minna helst á fáklæddar poppstjörnur í tónlistarmyndböndum. „Til dæmis leikfangahestar, þeir voru þybbnir og sætir þegar ég var barn, en núna eru þeir langleggjaðir, tággrannir og ögrandi á svip og ekki mjög hestalegir.“
En hvað með Barbí? „Hún hefur breyst minna en margt annað, það eru aðallega fötin hennar sem hafa breyst og þau eru yfirleitt stutt, þröng og ögrandi. Eins og klippt út úr tónlistarmyndböndum.“
Hefur þessi breyting líka orðið á leikföngum sem ætluð eru drengjum? „Nei, ekki í sama mæli. Leikföngin þeirra eru einfaldlega allt öðruvísi og þar skipta svona útlitsatriði ekki eins miklu máli.“
Steinrún segir erfitt að finna leikföng sem séu ætluð báðum kynjum, það sé helst í ungbarnadeildinni. „Bleika deildin inniheldur brúður, vinalega bangsa og gæludýr. Þarna eru leikföng sem koma tilbúin úr pakkanum og þarf enga sérstaka rökhugsun eða útsjónarsemi til að nota. Þar er lítið um fjarstýrð leikföng og þó að innihaldið gæti hentað báðum kynjum eru umbúðirnar vel merktar„Girls“ eða með mynd af stúlkum. Bláa, eða í raun svarta deildin, er full af farartækjum, vélmönnum, fjarstýrðum leikföngum, leikföngum sem bjóða upp á ærslafullan leik og þurfa á rökhugsun að halda í samsetningu, leikföngum sem hafa fleiri en eina virkni.“
En það er varla nokkuð sem bannar fólki að kaupa leikfang handa strák í bleiku deildinni og öfugt? „Nei, auðvitað ekki. En þetta er ekki alveg svona einfalt. Það er búið að innprenta stelpunum hvernig það er að vera stelpa og strákunum hvað felst í því að vera strákur. Allt er svo fyrirfram gefið. Fáum stelpum dettur í hug að fara í strákahillurnar, það krefst hugrekkis, því það er búið að kenna þeim að þær eigi að leika sér með bleika dótið. En að sjálfsögðu eru undantekningar á þessu eins og öllu öðru.“
Er þá ekki hægt að setja gröfurnar og tækni-Legoið í bleika pakka? „Jú, en það er heldur engin lausn. Heldur þarf að gera börnum grein fyrir því frá unga aldri að allir mega leika með allt og hætta að kyngreina leikföng. Þarna geta hönnuðir sannarlega breytt bæði áherslunum og staðalímyndum.“