Deilt um Jafnaðarmannaflokk Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurgeir S.

Tillaga um að nafni Samfylkingarinnar verði breytt er ekki ný af nálinni en eins og mbl.is fjallaði um í gær hafa þær Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, lagt til að tekið verði upp nafnið Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands á landsfundi hans í byrjun febrúar.

Sama nafn var þannig lagt til af Guðmundi Árna Stefánssyni og Lúðvík Bergvinssyni, þáverandi þingmönnum Samfylkingarinnar, fyrir landsfund flokksins árið 2001. Fyrir landsfundinn voru lagðar fram einar átta tillögur að nýju nafni á flokkinn en miklar umræður urðu um hugsanlega nafnabreytingu í aðdraganda fundarins. Eins og þekkt er var Samfylkingin sameinuð úr fjórum flokkum, Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu, Samtökum um kvennalista og Þjóðvaka.

„Við skoðanasystkini í Samfylkingunni erum jafnaðarmenn sem aðhyllumst þau víðsýnu, mannúðlegu og umburðarlyndu viðhorf, sem jafnaðarstefnan býr yfir. Við erum flokkur raunverulegs frelsis einstaklinga, flokkur jafnra tækifæra, flokkur jafnréttis, flokkur virkrar samkeppni á markaði, en um leið samhjálpar og velferðar. Þess vegna á flokkurinn okkar að kenna sig við þessa sömu jafnaðarstefnu og heita Jafnaðarmannaflokkur Íslands,“ sagði í rökstuðningi Guðmundar og Lúðvíks og þess jafnframt getið að nafnið Samfylkingin hafi aðeins verið hugsað til bráðabirgða.

Vildi kalla Samfylkinguna Alþýðubandalagið

Meðal annars var einnig lagt til heitið Samfylkingin - kvenfrelsis-, alþýðu- og jafnaðarmannaflokkur Íslands, Bandalag jafnaðarmanna og Jafnaðarmannaflokkurinn. Þá var stungið upp á nafninu Alþýðubandalagið, Samfylkingin - Jafnaðarflokkurinn, Jafnaðarflokkurinn og Sameiningarflokkur alþýðu - Samfylkingin. Jóhann Geirdal, þáverandi varaformaður Alþýðubandalagsins, lagði til að nafn bandalagsins yrði fært yfir á Samfylkinguna sem mótspil gegn tillögu Guðmundar og Lúðvíks. Minnti hann á í rökstuðningi sínum að Alþýðuflokkurinn ætti löggilt nafnið Alþýðuflokkurinn - Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

„Ef það má verða til að ná sátt um nafnið tel ég vel koma til greina að tengja þessi tvö nöfn saman og gæti nafnið þá orðið Alþýðubandalagið - Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Þá vantar þó að tekið sé tillit til þeirra sem koma úr Samtökum um kvennalista. Því mætti jafnvel hugsa sér nafnið Alþýðubandalagið - flokkur jafnaðarmanna og kvenfrelsissinna,“ sagði Jóhann.

Þess má geta að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, núverandi forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar lagði fram tillöguna Samfylkingin - jafnaðarflokkurinn sem margir litu á sem eins konar málamiðlun. Tillögurnar voru hins vegar allar dregnar til baka á landsfundinum en tillaga Ástu Ragnheiðar var síðust dregin til baka eftir að Margrét Frímannsdóttir, þáverandi varaformaður flokksins, kallaði eftir því að tillögum að nafnabreytingu yrði vísað til framkvæmdastjórnar.

Viðskeytinu bætt við nafn Alþýðuflokksins

Viðbótin Jafnaðarmannaflokkur Íslands hafði þó áður komið við sögu í íslenskum stjórnmálum eins og áður er komið inn á en haustið 1990 var samþykkt á flokksþingi Alþýðuflokksins að breyta nafni flokksins í Alþýðuflokkurinn - Jafnaðarmannaflokkur Íslands að tillögu þáverandi formanns hans Jóns Baldvins Hannibalssonar. Jón viðraði þessa hugmynd sína á flokksstjórnarfundi Alþýðuflokksins í byrjun júní sama ár.

Síðar í þeim mánuði var hins vegar rætt um það innan Alþýðubandalagsins að breyta nafni þess flokks í Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Mörður Árnason, núverandi þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti þetta við Morgunblaðið 28. júní 1990 og gaf þá skýringu að það væri „dæmalaus frekja af Alþýðuflokknum að ætla að stela þessu nafni á meðan Alþýðubandalagið væri til og á meðan meirihluti manna þar teldi sig vera jafnaðarmenn,“ eins og sagði í frétt blaðsins.

Nafnabreytingin á Alþýðuflokknum var samþykkt á flokksþinginu um haustið en nafni Alþýðubandalagsins var hins vegar ekki breytt. Hins vegar var deilum um nafnið ekki þar með lokið. Þannig sagði Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins í nóvember 1991 „að Alþýðuflokkurinn hefði svikið jafnaðarmenn, skreytt sig nafnbótinni Jafnaðarmannaflokkur Íslands fyrir ári, sem nú væri háðsmerki við verk forystunnar.“

Þá lagði Ólafur áherslu á að Alþýðubandalagið væri hinn raunverulegi Jafnaðarmannaflokkur Íslands en þá um vorið hafði Alþýðuflokkurinn myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, svonefnda Viðeyjarstjórn.

„Við heitum því að bera með réttu, í raun og sann heiti jafnaðarstefnunnar og þeirrar róttækni og félagshyggju sem Ísland þarf nú á að halda. Og við segjum við þær þúsundir sem trúðu því að aðrir myndu bera þetta merki en voru sviknir í vikunni eftir kjördag; Við bjóðum ykkur velkomin í okkar samfylgd.“

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert