Búinn að hella niður 50 þúsund lítrum

Daníel hellir daglega niður um 750 lítrum af mjólk. Mjólkin …
Daníel hellir daglega niður um 750 lítrum af mjólk. Mjólkin rennur niður í niðurfallið. mbl.is/Golli

Daníel Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum í Reykhólasveit, missti framleiðsluleyfi 12. nóvember sl. og hefur í tæplega tvo og hálfan mánuð helt niður mjólk, samtals yfir 50 þúsund lítum. Daníel bíður enn eftir svari atvinnuvegaráðuneytisins um hvort ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta hann leyfi, verði endurskoðuð.

Þegar ný matvælalöggjöf tók gildi hér á landi árið 2010 voru gerðar breytingar á opinberu eftirliti héraðsdýralækna. Áður voru dýralæknar bæði í því hlutverki að lækna dýr, hafa eftirlit með dýrum og hafa eftirlit með fjósum og hreinleika afurðanna. Með nýju lögunum voru skipaðir sex héraðsdýralæknar og þeirra hlutverk er fyrst og fremst að tryggja heilbrigði og velferð dýra og fylgjast með hreinleika og þrifnaði í framleiðslu.

Þó tilgangur þessara breytinga hafi verið að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra í starfi dýralækna þá hefur þessi breyting einnig orðið til þess að allt eftirlit með framleiðslu bænda hefur verið aukið og kröfur verið hertar.

Dýralæknir gerði athugasemdir

Þegar nýr héraðsdýralæknir kom til að skoða fjósið á Ingunnarstöðum í júní á síðasta ári gerði hann nokkrar athugasemdir við fjósið. Athugasemdirnar eru merktar sem „frávik“, en þær snerta þrif á mjaltabúnaði, mjólkurhús, handþvottaaðstöðu. Gerð er athugasemd við að pollur sé við vatnskar og að mjólkurhúsgólf sé gróft og erfitt sé að þrífa það. Jafnframt er vakin athygli á því að ekki sé búið að rannsaka gæði vatnsins, en það hlutverk Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða að gera það.

Héraðsdýralæknir kom aftur í september til að kanna hvort gerðar hefðu verið úrbætur. Í skýrsla dýralæknis segir að búið sé að þrífa mjaltaþjón en talsvert ryk sé þó ofan á honum. Handþvottaaðstaða hafi verið bætt, en krani sé þó enn mjög skítugur og það vanti handþurrkur. Fram kemur að hvorki hafi verið gerðar úrbætur við vatnskarið né á mjólkurhúsgólfi. Alvarlegasta athugasemdin er þó að vatnið standist ekki gæðakröfur.

Héraðsdýralæknir kom aftur í heimsókn í byrjun október og þá eru gerðar athugasemdir við þrif á mjaltaþjóni, á veggjum, tröppum, handþvottaaðstöðu og bætt er við að drasl sé í kringum fjósið.

Nýr dýralæknir gerir strangari kröfur

Daníel segir að venjulega þegar dýralæknir kom til að skoða fjósið hafi það tekið um tíu mínútur. Stundum hafi verið gerðar einhverjar smávægilegar athugasemdir sem hann hafi reynt að taka tillit til. Þegar nýi héraðsdýralæknir kom í júní sl. hafi hann verið um tvo klukkutíma að skoða fjósið. Hann segist hafa verið í miðjum heyskap þegar athugasemdir bárust og talið að hann þyrfti ekki að rjúka úr heyskap til að gera úrbætur sem merktar hafi verið „frávik“. Þegar hann hafi fengið upplýsingar að vatnið stæðist ekki gæðakröfur hafi hann strax brugðist við, en í ljós hafi komið að rör var farið í sundur við brunninn sem leiddi til þess að yfirborðsvatn komst í vatnsleiðsluna. Ný rannsókn staðfesti að vatnið er komið í gott lag og stenst gæðakröfur.

Daníel segist hafa lagt áherslu á að þrífa mjaltaþjón og honum finnst langt gengið að gerð sé athugasemd við að ryk sé efst á honum.

Daníel segir að vegna óljósrar fjárhagslegrar stöðu sinnar hafi hann ekki treyst sér til að gera endurbætur sem kostuðu verulega fjármuni eins og að flísaleggja gólf í mjólkurhúsi og göngum við mjaltaþjón. Aðalatriði sé þó að athugasemdirnar séu ekki alvarlegar. Mjólkin hafi staðist gæðakröfur og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við aðbúnað kúnna eða þrifnað á þeim.

Daníel er ósáttur við hversu stuttan frest hann fékk til að bregðast við, en 31. október er honum tilkynnt að hann Matvælastofnun hyggist afturkalla starfsleyfi vegna þess að ekki hafi verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum. Fram kemur í bréfinu að sumar athugasemdirnar nái allt til ársins 2008. Starfsleyfið var síðan afturkallað 12. nóvember og síðan hefur Daníel ekki mátt selja mjólk. Hann framleiðir um 750 líta af mjólk á dag og er því búinn á þessu tímabili að hella niður yfir 50 þúsund lítrum af mjólk.

Daníel segir blóðugt að þurfa að hella niður allri þessari mjólk. Hann hefur nýtt einhvern hluta hennar í kálfa.

Daníel kærið ákvörðun Matvælastofnunar um að svipa hann leyfi til atvinnuvegaráðuneytisins. Jafnframt óskaði hann eftir að hann fengið að selja mjólk meðan ráðuneytið væri að svara bréfinu. Því hafnaði ráðuneytið, en hann bíður hins vegar enn eftir efnislegu svar frá ráðuneytinu.

Daníel sótti jafnframt á ný eftir framleiðsluleyfi til Matvælastofnunar. Því hafnaði stofnunin með þeim rökum að Daníel sé ekki eigandi jarðarinnar eða bústofnsins.

Daníel tekur fram að héraðsdýralæknir hafi ekki komið í heimsókn til sín síðan 5. október.

Gjaldþrota í nóvember 2011

Daníel var lýstur gjaldþrota í nóvember 2011. Gjaldþrotið má m.a. rekja til fjárfestinga sem hann réðist í á árunum 2006-2008.

„Árið 2005 kom í heimsókn til mín maður frá Landsbankanum og bauðst til að fjármagna fyrir mig byggingu á nýju fjósi með tveimur róbótum.  Ég ákvað að undirbúa stækkun búsins með því að kaupa kýr og kaupa kvóta. Eftir að Landsbankinn hafði keypt Lánasjóð landbúnaðinn kom annað hljóð í stokkinn og þeir vildu þá lítið gera fyrir mig. Árið 2006 ákvað ég að kaupa róbót og gera endurbætur á fjósinu. Ég fékk lán frá Landsbankanum til þessara fjárfestinga,“ segir Daníel.

Daníel segir að það hafi tekið nokkurn tíma að ljúka þessum framkvæmdum og ná tökum á nýrri tækni við mjaltir. Vegna þess hve fjárhagurinn hafi verið orðinn þröngur hafi hann ekki náð að klára allar þær endurbætur á fjósinu sem hann hafi ætlað að fara í.

Þó að Daníel sé gjaldþrota og skipaður hafi verið skiptastjóri segist hann lítið hafa haft af honum að segja.

Daníel segir að Landsbankinn hafi boðið sér sjö mánaða leigusamning, en hann hafi hafnað honum vegna þess að leigan hafi verið of há eða um 680 á mánuði. Hann sagðist hafa boðist til leigja búið á 250 þúsund en því tilboði hafi ekki verið svarað.

Daníel segir að sl. vor hafi Landsbankinn tekið beingreiðslur, sem berast frá ríkissjóði til sín. Kvótinn hafi síðan verið seldur í haust, en Daníel efast um að sú aðgerð sé löglög því að samkvæmt lögum megi ekki selja framleiðslurétt nema með samþykki framleiðanda.

Gaf Daníel góðan tíma til að finna lausn

Pétur Kristinsson skiptastjóri segir að eftir að Daníel varð gjaldþrota hafi hann ákveðið að gefa honum og lögmönnum hans góða tíma til að finna lausn á málinu þannig að hann geti haldið áfram búskap, en það hafi ekki tekist. Lykillinn að því hafi verið að ná samningum við Landsbankann. Staða Daníels hafi verið að þrengjast. „Ég er sjálfsagt búinn að gefa honum of langan tíma og nú er að líða að því að það þarf að fást botni í málið,“ segir Pétur.

Þrotabúið á í dag skepnurnar á Ingunnarstöðum, en Landsbankinn hefur leyst til sín jörðina.

Daníel hefur búið á Inngunarstöðum frá 10 ára aldri.
Daníel hefur búið á Inngunarstöðum frá 10 ára aldri. mbl.is/Golli
Daníel er með rúmlega 50 mjólkandi kýr í fjósi og …
Daníel er með rúmlega 50 mjólkandi kýr í fjósi og annað eins af kálfum og kvígum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka