Vilja framlengja gæsluvarðhald yfir Karli Vigni

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Gæsluvarðhald yfir Karli Vigni Þorsteinssyni rennur út í dag, en hann hefur verið í haldi lögreglu í hálfan mánuð. Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að vafalaust verði farið fram á gæsluvarðhaldið yfir Karli Vigni verði framlengt í dag.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að nánari tímasetningar varðandi lengd gæsluvarðhaldsins muni liggja fyrir síðar í dag.

Hinn 9. janúar var Karl Vignir úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en hann er sakaður um fjölmörg kynferðisbrot sem teygja sig marga áratugi aftur í tímann.

Aðspurður segir Friðrik Smári að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Hann segir að málið sé viðamikið og að nokkrar kærur hafi borist til lögreglu í kjölfar umfjöllunar Kastljóss fyrr í þessum mánuði um brot Karls Vignis. „Ætli það sé ekki einar sex kærur sem við teljum að brot séu hugsanlega ekki fyrnd,“ segir Friðrik Smári.

Spurður nánar út í fyrninguna segir hann: „Það fer eftir hverslags brot það eru og gegn hverjum.“

Þá segir Friðrik Smári „ekkert endilega“ þegar hann er spurður hvort Karl Vignir hafi brotið alfarið gegn börnum eða einstaklingum sem séu undir lögaldri. Hann segist ekki geta tjáð sig nánar um það.

Lögreglan er búin að yfirheyra Karl Vigni nokkrum sinnum í tengslum við rannsóknina. Þá er búið að taka skýrslur af brotaþolum og vitnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert