Margir grunnskólakennarar vinna yfir 50 klukkustundir á viku, en vinnuvika kennara í fullu starfi eru 42,86 stundir. Mörg dæmi eru um að þeir fái ekki greitt aukalega fyrir þessa auknu vinnu, kennarar eru orðnir langþreyttir á skilningsleysi sveitarfélaganna og vilja nú skilgreina hvaða störfum þeim beri að sinna. Vinnuálagið hefur aukist mikið undanfarin ár.
Þetta er meðal þess sem kom út úr könnun á starfi grunnskólakennara sem gerð var að frumkvæði Kennarasambands Íslands og Samtaka sveitarfélaga.
Ólafur Loftsson formaður Félags grunnskólakennara segir að þetta aukna álag sé fyrst og fremst tilkomið vegna annarra starfa kennara en kennslu, því kennsluskyldan hafi verið lækkuð fyrir nokkrum árum. „Verkefnunum hefur einfaldlega fjölgað mjög mikið og tíminn til að sinna þeim er ekki nægur.“
„Þegar eitthvað kemur upp í samfélaginu sem þarf að bæta; fjármálalæsi, umferðarreglur eða kreppan. Það er alveg sama hvar drepið er niður; alltaf á grunnskólinn að bregðast við. Að auki hefur skólastarf í eðli sínu breyst mjög mikið og kennarar eru að sinna öðrum þáttum sem má segja að séu uppeldislegir og voru áður á ábyrgð heimilanna.“
Ólafur segir að þetta snúist ekki um hvað kennurum finnist um að sinna þessum verkefnum. „Ekkert af þessu er slæmt í sjálfu sér. En ef við ætlum að vinna öll þessi verkefni, þá verðum við að hafa tíma til þess. Eða fara í hina spurninguna: Hverju á að sleppa í staðinn? Á að sleppa einhverjum námsgreinum eða draga úr foreldrasamstarfi?“
Eins og áður hefur komið fram snýst deila grunnskólakennara og sveitarfélaganna ekki um laun, heldur hvernig tryggja megi gæði skólastarfs.
„Við höfum margoft sagt að þessi deila snýst ekki um kaup og kjör, heldur viljum við leysa þetta vandamál. Við höfum t.d. lagt til að lækka kennsluskyldu umsjónarkennara þannig að þeir fái tíma til að sinna þessum verkefnum. Það má ekki gleyma því að nýlega voru samþykkt lög um ábyrgð og skyldur aðila innan skólasamfélagsins þar sem ýmsar lagalegar skyldur eru lagðar á kennara. En þeir hafa ekkert svigrúm til að sinna þeim. Næsta skref hjá okkur er að komast að því hvað það er sem fólk á að gera og hvað það á ekki að gera og skilgreina starfið samkvæmt því.“
En hvers vegna hafa grunnskólakennarar ekki vakið athygli á þessu fyrr? Er ekki við þá sjálfa að sakast, að hafa ekki dregið mörkin fyrr? „Það má vera að menn hafi sofið á verðinum. Það settist enginn niður og sagði að þetta ætti að verða svona, þessi verkefni hreinlega láku inn í kerfið, þetta hefur bara gerst. Við erum með samviskusamasta og duglegasta fólk í heimi við að vinna þessi störf. Það hefur verið skorið mikið niður í skólunum, en alltaf gengur skólastarfið. Það er bara vegna þess að fólk hefur verið að bæta á sig vinnu. En það er ekki hægt að halda þannig áfram.“
Ólafur segir að fjölmargar leiðir hafi verið lagðar fram af hálfu forystu félagsins en þær hafi ekki hlotið hljómgrunn. Meðal þeirra séu að meta þörf hvers og eins nemanda og raða hópunum þannig saman að kennsluþörfin ráðist þá af samsetningu nemendahópsins en ekki af fjöldanum og að settar verði reglur um hámarksfjölda nemenda í bekk, en að sögn Ólafs eru dæmi þess að allt að 30 nemendur séu í einum bekk.
Er þessi skólastefna sem íslenskir grunnskólar starfa eftir, skóli án aðgreiningar, að ganga upp við núverandi aðstæður? „Nei. Það er mat kennara að svo sé ekki eins og aðstæður eru í dag. Þetta snýst ekki um að vera með eða á móti þeirri stefnu, heldur þær aðstæður sem skólastarfi eru búnar. Það hvarflar að manni að menn hafi ekki hugsað það til enda hvað þessi skólastefna þýddi í raun og veru.“