Sér ekki á veginum eftir blæðingu

Tjaran olli tjóni á mörgum bílum.
Tjaran olli tjóni á mörgum bílum. Ljósmynd/Umferðarstofa

„Það er ekkert hægt að gera eftir að það frýs, þá er bara að bíða eftir næstu þíðu,“ segir Einar Gíslason deildarstjóri Vegagerðarinnar á Sauðarkróki. Tjörublæðingar á Hringveginum milli Blönduóss og Hrútafjarðar virðast hafa hætt, a.m.k. í bili, með kólnandi veðri í gærkvöldi.

Vegagerðin lauk í gær við að hreinsa tjörukögglana sem losnað höfðu upp og borist með bílum. Aðspurður segir Einar að vegurinn sé ekki illa farinn eftir blæðingarnar. „Það sér ekki á veginum.“

Vegagerðin mun því ekki ráðast í neinar framkvæmdir á veginum að svo búnu enda segir Einar lítið hægt að gera á meðan frost er en í næstu þíðu verður skoðað hvort tilefni sé til að bera í veginn. „Það er það sem við munum gera tilraunir með. Við vitum svo sem ekki hvernig það mun virka en það verður prófað ef það fer að blæða aftur, sem er auðvitað ekki víst að gerist.“

Óvíst með bótaskyldu

Vegagerðin er litlu nær um hvað nákvæmlega varð til þess að blæðingarnar hófust en vísar sem fyrr til samblands margra samverkandi þátta, bæði í tíðarfari, ofaníburði og íblöndunarefnum í klæðningunni. Aðspurðu segir Einar að nú sé í raun uppi biðstaða í málinu.

Ekki fengust upplýsingar frá Sjóvá um hvort fleiri tilkynningar um tjón á bílum hafi borist í dag. Guðmundur Magnússon hjá Sjóvá segir í samtali við Morgunblaðið í dag að óljóst sé með bótaskyldu vegna tjörublæðinganna. Finna þurfi út úr því hvað valdi þeim áður en ákvörðun verði tekin en hvert mál verði skoðað fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert