Blæddi á um 45 km kafla

Blæðingar í malbiki urðu á um 40-45 km köflum víða …
Blæðingar í malbiki urðu á um 40-45 km köflum víða á leiðinni frá Holtavörðuheiði til Akureyrar. Kort/Vegagerðin

Engar blæðingar eru lengur á þjóðvegunum Vestanlands- og Norðan, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Búið er að hreinsa vegina að mestu, en sumstaðar liggja enn fastar klessur sem ber að varast. Yfir 100 ökutæki urðu fyrir tjóni.

Vegagerðin er töluvert nær því að átta sig á ástæðu þessara vetrarblæðinga, samkvæmt frétt á vef þeirra. Búið er að kortleggja þau svæði sem blæddi úr og bera saman við þau mýkingar og þynningarefni sem notuð voru við útlögnina. Í ljós kom að klæðningar sem lagðar voru á árunum 2010 og 2011 hafa orðið verst úti. 

Blæddi á um 45 kílómetra kafla

Á þessari stundu segir Vegagerðin mögulega skýringu blæðinganna geta verið þá að miklar hitasveiflur í janúar, þar sem hitinn sveiflaðist úr frosti og í talsverðan hita 8-9 sinnum, hafi skapað þær aðstæður að vatn náði að blandast efni í klæðingunni og bílar náð að daga það efni upp úr henni. Til samanburðar er bent á að hitasveiflur af þessu tagi urðu ekki nema 2-3 sinnum í janúar 2012. 

Blæðingar urðu á um 40 til 45 km köflum víða á leiðinni frá Holtavörðuheiði til Akureyrar. Á um 25 km af þeim, sem verst blæddu, var notuð repjuolía til mýkingar við útlögn en annars etýlesterarnir úr lýsi eða hvítspíri (White Spirit) til þynningar. Á þeim köflum voru blæðingar minni.

Repjuolían send til Þýskalands

Repjuolían, sem notuð var síðast árið 2011, verður send í rannsókn til Þýskalands og einnig sýni úr lífolíunni sem er nánar tiltekið etýlesterar úr fiskilýsi. Mögulegt er að repjan sé að hluta til vatnsleysanleg og það gæti skýrt umfang þessara blæðinga núna að sögn Vegagerðarinnar, sem ítrekar þó að ekki sé hægt að slá neinu föstu á þessari stundu.

Áfram verður unnið að því að rannsaka hvað getur orsakað blæðingar sem þessar, hvernig koma megi í veg fyrir það og hvernig bregðast megi við komi þessi staða upp aftur, að sögn Vegagerðarinnar.

Rífa þurfti dekk undan fólksbíl til að losa bretti sem …
Rífa þurfti dekk undan fólksbíl til að losa bretti sem höfðu rifnað upp vegna tjörunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert