Eigum ekki að hræðast breytingar í skólastarfi

Úr grunnskólastarfi.
Úr grunnskólastarfi. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir fulla þörf á að skilgreina starf grunnskólakennara upp á nýtt. Óásættanlegt sé fyrir nemendur að kennarar þeirra séu of mörgum störfum hlaðnir, leggja beri áherslu á kjarnastarfsemi skólanna. Hann segist efast um að sú skólastefna sem hér er unnið samkvæmt, Skóli án aðgreiningar, sé að skila tilætluðum árangri.

„Það þarf alltaf að endurskoða störf kennara og skólastarfið í heild. Það þarf að skoða hver kjarnastarfsemin sé, hvert er aðalverkefni kennara. Ef tími þeirra er að fara í eitthvað allt annað, þá þarf að skoða hvort hægt sé að breyta því, þannig að hægt sé að bæta skólastarf,“ segir Halldór. „Við eigum ekki að hræðast breytingar.“

Í viðtali mbl.is í gær segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, að margir grunnskólakennarar vinni talsvert meira í viku hverri en þeim ber að gera, án þess að fá greitt fyrir það. Starfssvið þeirra sé orðið of víðfemt til að hægt sé að ná utan um það með góðu móti. Halldór segir þetta slæma þróun.

Er ásættanlegt fyrir nemendurna að kennarar þeirra séu svo störfum hlaðnir að þeir komist ekki yfir að sinna þeim sem skyldi? „Nei, alls ekki. Við verðum að endurskoða kennarastarfið. Hver eru þessi störf, önnur en kennsla, sem kennarar eru að vinna og hverju má breyta. Það er mjög margt sem bendir til þess að við verðum að gera breytingar og þá eigum við bara að gera það.“

Efast um skólastefnuna

Ólafur sagði í viðtalinu við mbl.is að það væri mat kennara að sú skólastefna sem íslenskir grunnskóla starfa samkvæmt, skóli án aðgreiningar, gengi ekki upp við núverandi aðstæður. Ertu sammála því?

„Það hafa ýmis rök komið fram sem gera mig að efasemdamanni um þessa skólastefnu. Umræðan um skóla án aðgreiningar hefur ekki bara verið tekin af kennurum og rekstraraðilum skólanna, þ.e.a.s. sveitarfélögunum. Heldur hafa líka ansi margir foreldrar fatlaðra barna stigið fram á sjónarsviðið og sagt: „Þetta hentar ekki barninu mínu.“ Mér finnst að þetta séu mál sem við ættum að ræða af yfirvegun og í samstarfi,“ segir Halldór.

Ekki verða settar reglur um hámarksfjölda í bekk

Allt að 30 nemendur eru í sumum bekkjum í grunnskólum. Reglur um hámarksfjölda nemenda í bekk voru afnumdar þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólunum af ríkinu árið 1996. Kemur til greina af hálfu sveitarfélaganna að setja slíkar reglur að nýju?

„Nei, við höfum ekki verið tilbúin að fara þá leið. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem sýna að það bæti skólastarfið. En allt á að vera undir þegar við endurskoðum þessi mál. Við viljum bæta gæði skólastarfsins, en við þurfum á sama tíma að leita leiða til að gera reksturinn hagkvæmari. Hann er mjög dýr. Ýmislegt hefur dregið það fram í alþjóðlegum samanburði að við séum með mjög dýrt skólakerfi, en við erum ekkert endilega með hámarks árangur í samræmi við það. Pisa-kannanir og annað sýnir það.“

Formaður Félags grunnskólakennara segir kennara ekki geta haldið áfram störfum sínum við núverandi aðstæður. Þarf ekki að bregðast fljótt við? „Jú, við þurfum að vinna þessa vinnu,“ segir Halldór. „Þótt það hafi ekki tekist í þessari atrennu sem við vorum í, þá verður það að takast að lokum.“

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert