Nokkuð viðamiklar breytingar á barnalögum tóku gildi um áramót, eftir að tillögu innanríkisráðherra um frestun gildistöku þeirra var hafnað. Framsögumenn á málþingi um barnalögin töldu allir að breytingarnar væru til batnaðar. Einn þeirra taldi hins vegar mikla óvissu uppi þar sem ekki væri hægt að uppfylla skilyrði laganna til þess að höfða mætti forsjármál fyrir dómstólum.
Málþingið var haldið á vegum Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, og bar yfirskriftina Barnalögin – Breytingar til batnaðar?.
Fyrst til að halda framsögu var Hrefna Friðriksdóttir, dósent í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, en hún átti þátt í samningu frumvarpsins. Hún hóf mál sitt á því að svara þeirri spurningu sem fram kom í yfirskriftinni. Sagðist hún enn vera nokkuð sammála sjálfri sér og telja breytingarnar til batnaðar.
Hrefna fór yfir helstu breytingar og sagði markmið þeirra að bregðast við því hvernig samfélagið hefði breyst, hvernig fjölskyldur og samskipti þeirra hefðu þróast. „Ein af meginstoðum breytinganna var að tryggja rétt barna til að hafa tengsl við báða foreldra,“ sagði hún og bætti við að vandi hefði komið upp í stöðu barna þar sem foreldrar byggju ekki saman. „Og hvaða samband er líklegast til að þjóna hagsmunum barnsins en ekki þörfum foreldranna.“
Hún fór yfir það nýmæli að dómurum væri nú heimilt að dæma sameiginlega forsjá barns. „En þetta verður ekki meginregla heldur heimild fyrir dómara sem beita á þegar þannig á við.“ Skoða þyrfti, og væri lögbundið, hvort hætta væri á ofbeldi og einnig meta ágreining foreldra, hvað deilt væri um og hversu djúpstæður ágreiningurinn væri.
Það sem allir framsögumenn voru sammála um að væri hvað stærsta breytingin er málsmeðferðin. Með þeirri breytingu væri reynt að breyta eðli þessara deilumála. Í stað þess að sýslumannsembættin sinntu aðeins lögfræðilegum málefnum yrðu þau þverfagleg; veittu bæði sérfræðiráðgjöf og yrðu miðstöð skyldubundinnar sáttameðferðar.
Inntakið í þessari breytingu er að allir þeir sem ætla að höfða forsjármál verða að gangast undir slíka sáttameðferð. Sé ágreiningurinn ekki leysanlegur fá aðilar máls vottorð upp á það sem er skilyrði þess að mál sé hægt að höfða. Reglugerð vegna þessarar sáttameðferðar hefur hins vegar ekki verið sett og því er ekki farið að bjóða upp á hana. Þyrí Halla Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem starfað hefur undanfarin ár nánast eingöngu á sviði sifjaréttar, segir þetta vekja margar og mikilvægar spurningar.
Í erindi sínu velti hún fyrir sér áhrifum þess ef það drægist fram eftir vori að setja reglugerðina, hvort það leiddi til þess að ekki yrði hægt að höfða forsjármál. Jafnframt hvort dómstólar myndu vísa forsjármálum frá þar sem skilyrði laganna væri ekki uppfyllt. „Það er ekki hægt að uppfylla þetta skilyrði. Þetta eru raunveruleg álitaefni sem liggja fyrir,“ sagði Þyrí og skoraði á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra að setja reglugerðina sem fyrst.
Hún tók sérstaklega fram að hún bæri miklar væntingar til sáttameðferðarinnar enda myndi eðli forsjármála fyrir dómi þá breytast og ekki þyrfti að höfða mál til þess eins að fara í sáttameðferð, sem hefði verið fyrir dómi.
Þá spáði Þyrí því að forsjármálum myndi fyrst um sinn fjölga, þar sem margir forsjárlausir foreldrar myndu vilja láta reyna á það nýmæli að hægt væri að dæma sameiginlega forsjá. Hvort sem það væru foreldrar sem vildu aftur fá forsjá eða hefðu aldrei verið með forsjá. Hún setti hins vegar þann fyrirvara að væntanlega yrði fjölgunar ekki vart fyrr en reglugerð ráðherra yrði sett, þar sem ekki væri hægt að höfða mál sem stendur.
Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur hefur unnið að forsjármálum undanfarin 20 ár og komið víða við; unnið að sáttamálum, sérfræðiaðstoð hjá sýslumönnum og sem matsmaður og meðdómandi í dómsmálum. Í erindi sínu sagði hann það sérlega gott að meiri áhersla væri lögð á sáttameðferðina, þó svo enn ætti eftir að þróa framkvæmdina. Hann sagði það geta komið málum í góðan farveg og kostaði miklum mun minna en að málin þyrftu að fara fyrir dóm.
Hann sagði að með breytingunum væri skerpt á mikilvægum atriðum, þetta væru breytingar sem byggðust á reynslu og lofuðu góðu. Þó svo þau hefðu tekið gildi með hraði hefði það kannski verið það sem þyrfti til að knýja á um að menn settu sig í framkvæmdastellingar.