Yfir 100 ökutæki orðið fyrir tjóni

Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós um sl. …
Svona var ástandið á hjólbörðum bifreiðar við Blönduós um sl. helgi. Ljósmynd/Jón Ragnar

Talið er að á bilinu 100 til 150 ökutæki hafi orðið fyrir tjóni vegna svokallaðra vetrarblæðinga, en tekið skal fram að þetta er gróflega áætlað. Nú þegar hafa yfir 50 tjón verið tilkynnt til Sjóvár, sem er tryggingafélag Vegagerðarinnar.

Vegagerðin og Sjóvá greindu frá því fyrr í dag að það hafi verið sameiginleg niðurstaða þeirra að bæta tjón á ökutækjum sem sannanlega megi rekja til vetrarblæðinga dagana 18. - 23. janúar sl.

Guðmundur Magnússon, fulltrúi í tjónadeild Sjóvár, segir í samtali við mbl.is að endanlegar tölur liggi ekki fyrir. Enn sé verið að taka á móti tilkynningum um tjón.

„Ég gæti ímyndað mér að þetta væri á milli 100 til 150 [ökutæki] sem búið er að láta okkur vita af. Það er ekki búið að skrá þau og ekki búið að senda okkur tjónstilkynningar frá stærri aðilum,“ segir Guðmundur. Stærri aðilar, t.d. flutningsfyrirtæki, sendi ekki tilkynningu um tjón fyrr en ljóst er hversu mörg ökutæki hafi skemmst.

Aðspurður segir Guðmundur að mikil vinna sé framundan við að skoða og meta tjón á ökutækjum. „Þetta verður allt metið. Menn fara á viðurkennd verkstæði og svo fara bílaskoðunarmenn okkar yfir þetta; þetta er allt borið saman,“ segir hann.

Þá eru aðrir ökumenn sem urðu ekki fyrir beinu tjóni vegna blæðinganna en þurfa að láta þrífa sína bíla vegna óhreininda sem má rekja til þeirra. Þeim málum skal vísa beint til Vegagerðarinnar sem greiðir fyrir þrif á bifreiðunum. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segist ekki hafa nákvæma tölu varðandi hversu margir hafi haft samband en ljóst sé að um nokkra tugi ökutækja sé að ræða. Þau séu þó færri en 50.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert