Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við Al Jazeera að bankarnir eigi að lúta sömu lögmálum og önnur fyrirtæki. Ef rekstur þeirra er óábyrgur þá eigi þeir að fara í þrot líkt og Íslendingar gerðu við sína banka í hruninu. Forseti Íslands er staddur í Davos í Sviss á alþjóðaefnahagsþinginu.
Forseti Íslands lýsti því fyrir fréttamanni stöðvarinnar, Stephen Cole, hvernig Ísland sé á réttri leið og það skýrist af því að hér hafi ekki verið fylgt hefðbundinni stefnu vesturlanda í hruninu. Meðal annars hafi hér verið sett gjaldeyrishöft, bankar sendir í gjaldþrot og fátækum verið veittur stuðningur ólíkt því sem önnur ríki í Evrópu hafa gert.
Aðspurður segir Ólafur Ragnar að hann telji að staðan væri önnur í Evrópu ef bankarnir hefðu verið gerðir gjaldþrota og hann skilji ekki hvers vegna talið sé að það eigi að koma öðru vísi fram við einkabanka en önnur fyrirtæki, svo sem flugfélög og fjarskiptafyrirtæki, ef þeir hafa verið reknir á óábyrgan hátt. Til lengri tíma litið muni almenningur ekki sætta sig við slíkt.
Framtíðin í nýsköpun og tækni
Hann segir að íslensku bankarnir hafi í raun verið eins og hátæknifyrirtæki þar sem hámenntað fólk í stærðfræði, tölvunarfræði, verkfræði ofl. hafi verið ráðið til starfa. Síðan í hruninu eftir að bankarnir fóru í þrot hafa hátæknifyrirtæki og fleiri tæknifyrirtæki blómstrað á Íslandi. Það sýni okkur að ef þú vilt að hagkerfið sé samkeppnishæft á sviði nýsköpunar þá séu sterkar fjármálastofnanir af hinu slæma. Framtíðin sé í hátækni og nýsköpun, að sögn forseta Íslands.