Ofbeldisfullt klám verður æ algengara og skelfilegt er hve aðgengilegt slíkt klám er fyrir börn og unglinga á netinu enda veitir ofbeldi í klámi mjög brenglaða mynd af kynlífi. Þetta segir Femínistafélag Íslands, sem fagnar því að í innanríkisráðuneytinu sé nú leitað leiða til að takmarka útbreiðslu og aðgengi að klámi sem er ofbeldis- og hatursfullt.
Í ályktun sem félagið sem félagið sendi frá sér í dag segir að um leið sé tilefni til að fagna aukinni áherslu á forvarnir gegn og vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, sem ráðuneyti mennta-, velferðar, og innanríkismála hafa staðið að í samstarfi við utanaðkomandi aðila.
Kynlíf eðlilegt og fallegt
Femínistafélagið segir að sér í lagi á netinu verði ofbeldisfullt klám sífellt algengara og þar séu mörkin alltaf að færast lengra út á jaðarinn. „Nú er svo komið að það sem áður var talið klám má sjá í poppmenningu, s.s. tónlistarmyndböndum, á meðan efni sem gengur miklu lengra og getur verið mjög ofbeldisfullt auk þess að vera niðurlægjandi er orðið mjög algengt og aðgengilegt,“ segir í greinargerð með ályktun félagsins.
„Aukning ofbeldis í klámi er ekki síst sorgleg í ljósi þess að hér er ekki um að ræða sviðsett slagsmálaatriði eins og í hasarmyndum, heldur raunverulega beitingu ofbeldis á fólki sem leikur í klámmyndum. Ofbeldi í klámi veitir mjög brenglaða mynd af kynlífi, því sem ætti að vera það fallegasta og eðlilegasta í lífi hvers og eins, og er skelfilegt hve aðgengilegt slíkt klám er fyrir börn og unglinga á veraldarvefnum.“
Hverjir hagnast í raun á klámi?
Femínistafélagið segir það knýjandi spurningu hverjir hagnist í raun á klámi, ekki síst þegar litið er til þess að fagaðilar sem starfa við rannsókn brota, með sakborningum eða brotaþolum telja að áhrifa kláms gæti í kynferðislegu ofbeldi. T.d. merkja starfsmenn kynferðisbrotadeildar lögreglu augljós áhrif kláms í mörgum þeim kynferðisbrotamálum sem inn á þeirra borð koma, eins og mbl.is hefur sagt frá.
„Það er því góða gjalda vert að leita leiða til að geta takmarkað þá ofbeldisvá sem klám hefur í för með sér og verður áhugavert að sjá niðurstöður starfshóps sem innanríkisráðherra tilkynnti ríkisstjórn að til stæði að stofna 22. janúar síðastliðinn,“ segir Femínistafélagið.
Fagna forvörnum gegn kynferðisofbeldi
Þá er að mati félagsins jákvætt að til standi að skilgreina betur hvað felst í hugtakinu klám, en samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga sætir það m.a. refsingu að birta klám á prenti, sem og að búa til, flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá opinberlega til sýnis. Í lögum er hins vegar ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu klám og vonast Femínistafélagið til þess að með góðri vinnu verði hægt að bæta úr því.
Að lokum fagnar Femínistafélagið aukinni áherslu á forvarnir gegn kynferðisofbeldi, með átakinu Vitundarvakning um kynferðisofbeldi gegn börnum. Félagið segir mikilvægt skref stigið í kynfræðslu á Íslandi með stuttmyndinni Fáðu já, sem verður frumsýnd 30. janúar og fjallar um mörkin milli kynlífs og ofbeldis.