Viðbragðsstjórn Landspítala ákvað síðdegis í dag að virkja viðbragðsáætlun spítalans á ný vegna skorts á sjúkrarýmum. Spítalinn hefur því verið settur á svokallað grænt óvissustig. „Við þurftum að virkja viðbragðsáætlunin í síðustu viku, síðan afléttum við óvissustiginu í nokkra daga, en nú er það komið á aftur,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum.
Hann segir starfsfólk vera undir miklu álagi og að það standi sig „gríðarlega vel“.
Að sögn Ólafs er þetta gert í samráði við Almannavarnir og metur viðbragðsstjórn sjúkrahússins stöðuna daglega. „Ástandið skánaði í nokkra daga, en núna erum við aftur að glíma við gríðarlegt plássleysi. Við erum með 37 sjúklinga í einangrun og um það bil 40 fleiri sjúklinga en mönnun gerir ráð fyrir.“
Ákveðið var í dag að flytja nokkra sjúklinga af Landspítalanum og á heilbrigðisstofnanirnar á Selfossi, Akranesi og á Suðurnesjum. Ekki er víst að það dugi til að sögn Ólafs. „Við munum athuga með enn meiri samvinnu að þessu leyti og höfum beðið FSA [Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri] um að vera í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.“
Þetta aukna álag gerir það að verkum að kalla hefur þurft fólk á aukavaktir. Ólafur segir það hafa gengið vel, en ekki sé endalaust hægt að leggja svona mikið á fólk. „Starfsfólkið okkar er undir miklu álagi og stendur sig gríðarlega vel.“
Undanfarna daga hafa öll sjúkrarými á Landspítalanum verið opnuð sem mögulega hefur verið unnt að koma fyrir og manna. Valstarfsemi hefur verið haldið í algeru lágmarki og var tugum aðgerða og meðferða aflýst í dag, að sögn Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Björn að sú ráðstöfun, að fresta aðgerðum, dygði einungis til skamms tíma.
Alls bíða á Landspítala eftir vistun á hjúkrunarheimilum 47 sjúklingar sem þegar eru komnir með vistunarmat. Að auki bíða 55 sjúklingar á spítalanum eftir 7 daga öldrunarendurhæfingu og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Stig viðbragðsáætlunar Landspítalans eru þrjú, óvissustig sem er grænt, hættustig sem er gult og neyðarstig sem er rautt. Á óvissustigi eru fáir kallaðir til, en treyst á það starfsfólk og þá þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni, eins og segir í Viðbragðsáætlun sjúkrahússins.