Flytja á sjúklinga af Landspítalanum á heilbrigðisstofnanirnar á Selfossi, Akranesi og Suðurnesjum til að létta álaginu af Landspítalanum. „Þetta verður að gerast fljótlega,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Fresta hefur þurft tugum aðgerða á sjúkrahúsinu í dag vegna álags, en sjúkrahúsið er yfirfullt.
Hann segir að líklega fari tveir sjúklingar á hverja af þessum þremur heilbrigðisstofnunum, sex í heildina og að þar hafi verið tekið vel í þessa ráðstöfun. „Við höfum verið í sambandi við þær daglega til að upplýsa um ástandið og undirbúa þau fyrir þetta,“ segir Björn og segir bæði mannskap og aðstöðu til að taka á móti sjúklingunum.
Fólkið verður valið með tilliti til þess hversu vel það þolir flutninga en væntanlega er ekki um að ræða hluta af þeim sjúklingum sem nú eru í einangrun á Landspítalanum vegna inflúensu, Nóró- og RS-víruss.
Að sögn Björns var hætt við tugi meðferða og aðgerða sem höfðu verið fyrirhugaðar í dag og þannig hefur það verið undanfarna viku. „Þessi ráðstöfun dugar kannski í skamman tíma, en ekki til lengri tíma litið. Fólkið þarf auðvitað að komast í sínar aðgerðir og meðferðir,“ segir Björn.