Dómar falli ekki í fjölmiðlum

Grundvallarmarkmið réttarkerfisins er að koma í veg fyrir að saklausir …
Grundvallarmarkmið réttarkerfisins er að koma í veg fyrir að saklausir menn séu dæmdir sagði Borgar Þór. mbl.is

Almenningur á Íslandi virðist ekki gera greinarmun á því að menn hafi verið kærðir fyrir glæp og að þeir hafi verið ákærðir. Það að vera borinn sökum um t.d. kynferðisbrot í fjölmiðlum án þess að ákæra hafi verið gefin út getur því verið gríðarlegt áfall. Því er mikilvægt að efla rannsóknarvaldið.

Þetta sagði Borgar Þór Einarsson, héraðsdómslögmaður og stjórnarmaður í Lögmannafélagi Íslands, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Nefndin hefur undanfarið haft kynferðisbrot til umfjöllunar, meðferð þeirra í kerfinu og lagaramma um hann. Á fund nefndarinnar í morgun voru boðaðir fulltrúar réttarfarsnefndar, Lögmannafélagsins og fjölmiðla.

Réttarkerfið er okkar val

Til umræðu á fundinum kom m.a. fjölmiðlaumfjöllun um kynferðisbrot gegn börnum og múgæsing sem myndast getur í samfélaginu þegar dómstóll götunnar vill taka málin í eigin hendur.

„Við byggjum samfélag okkar á réttarkerfi, sem er okkar val. Grundvallarmarkmið þess er að koma í veg fyrir að saklausir menn séu dæmdir. Það væri hægt að gera þetta öðru vísi og sumstaðar er það gert, þannig að öll áhersla sé á að allir sem eru sekir náist örugglega. En almenningur gerir ekki greinarmun á því að menn hafi verið kærðir fyrir glæp og að þeir hafi verið ákærðir,“ sagði Borgar Þór.

Hann benti á að lögmenn gegni því tvíþætta hlutverki að vera verjendur þeirra sem sökum eru bornir og réttargæslumenn þeirra sem brotið sé á. Sömuleiðis beri rannsakendum lögum samkvæmt að líta bæði til þess sem bendi til sakleysis eins og þess sem bendi til sektar. Fjölmiðlar lúti ekki sömu reglum og séu misvel til þess fallnir að fjalla um sakamál. Því séu fjölmiðlar ekki réttu aðilarnir til að fella dóma yfir mönnum. 

Löggjafinn efli rannsóknarvaldið

„Því frelsi sem fjölmiðlar hafa fylgir ábyrgð [...] Það að vera borinn sökum í fjölmiðli er gríðarlegt áfall fyrir nafngreinda menn. Við þekkjum dæmi um að slík mál hafi riðið mönnum að fullu án þess að hafa verið rannsökuð.“

Borgar Þór sagði fjölmiðla ekki hafa það sem þurfi til að framkvæma rannsókn á t.d. kynferðisbrotamálum. Þeir séu auk þess misvel í stakk búnir til að skoða mál til hlítar enda sé þar mikil krafa um framleiðni. Þetta sagði Borgar undirstrika enn frekar mikilvægi þess að efla rannsóknarvaldið svo þeir seku væru sakfelldir í réttarkerfinu.

„Ef löggjafinn ætlar að gera alvöru úr þeim breytingum sem gerðar eru á lögum þarf að fylgja því eftir með auknum fjárveitingum. Dæmi eru um að mál dragist úr hófi fram vegna þess að álagið er allt of mikið miðað við þá fjármuni sem [lögreglu og ákæruvaldinu] er skammtað. Þótt aðhald fjölmiðla sé nauðsynlegt verður lögregla að hafa fjármagn [til þess að sinna sínu hlutverki].“

Fjölmiðlar hefji umræðuna en hemji hana líka

Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, og Reynir Traustason, ritstjóri DV, mættu einnig á fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun og svöruðu spurningum þingmanna vegna umfjöllunar um kynferðisbrotamál og vinnureglur fjölmiðla.

Þar kom fram í máli Sigmars að hjá Kastljósi hefði verið farið yfir allar hliðar máls Karls Vignis Þorsteinssonar áður en um það var fjallað í Kastljósi. Ákvörðun um að nafngreina hann og birta af honum mynd hafi byggst á því að hafið þótti yfir allan vafa að hann væri sekur um þessi brot, enda játaði hann það sjálfur.

Sigmar sagðist telja að fjölmiðlar væru almennt varkárir í umfjöllun um svona mál og egndu ekki dómstól götunnar, það væri erfitt við það að eiga þegar einstaklingar í samfélaginu vildu grípa lögin í eigin hendur. Fjölmiðlar væru oft mikilvægur vettvangur til að hefja umræðu sem stjórnvöld gætu ekki hafið, en að þeir reyndu jafnframt að hemja hana líka með því að ræða við fagfólk samhliða persónulegum frásögnum þolenda.

Rétt frétt en ósmekkleg framsetning

Reynir Traustason nefndi sem dæmi umfjöllun DV árið 2006 um Gísla Hjartarson kennara á Ísafirði og kynferðisbrot sem hann beitti unga drengi. Reynir, sem starfaði sjálfur ekki hjá DV á þeim tíma, sagði að í því máli hefði það ekki verið röng frétt sem felldi DV heldur ósmekkleg framsetning. 

Enginn núverandi blaðamanna DV vann á blaðinu árið 2006 en Reynir sagði þetta mál þó hafa íþyngt blaðinu allar götur síðan enda hefði gríðarleg múgæsing orðið í samfélaginu í kjölfarið. Það væri fyrst nú með viðtali Kastljóss við þolendur Gísla Hjartarsonar sem hætt væri að saka blaðamenn DV um að hafa framið morð. 

Reynir sagði jafnframt að DV hefði lært af þessu. Aðgát væri höfð í framsetningu mála og þegar viðtöl væru tekin við þolendur kynferðisbrota væru óskir þeirra virtar vidu þeir ekki að sjónum væri beint að gerandanum og hann nefndur á nafn. Reynir nefndi einnig dómstól götunnar á facebook, þar sem undanfarið hefðu birst ásakanir um meint barnaníð nafngreindra einstaklinga. Þar væri ekki við fjölmiðla að sakast heldur þá einstaklinga sem tækju sjálfir lögin í eigin hendur.

Borgar Þór Einarsson
Borgar Þór Einarsson
Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson.
Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Reynir Traustason, ritstjóri DV.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka