Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar að töluvert nýsnævi hafi bæst ofan á gamla snjóinn sem var fyrir um helgina og hafa flóð fallið til fjalla af þeim sökum. Krapi er í byggð en snjór er hins vegar þurr ofan við 300 metra segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að spáð sé áframhaldandi úrkomu næsta sólarhring en á miðvikudag ætti hins vegar að létta til. Áframhaldandi óstöðugleiki geti þó verið í nýja snjónum eftir að úrkoma hættir.