Heimsmeistaramótið í matreiðslu á eistum verður haldið í Serbíu hinn 31. ágúst næstkomandi og skorar stjórnandi keppninnar á Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, að taka þátt í keppninni.
„Við vitum að Íslendingar eiga Besta flokkinn. En eru þeir með bestu eistun?“ spyr Ljubomir Erovic sem er stofnandi og stjórnandi keppninnar.
Þetta verður í tíunda skiptið sem keppnin verður haldin. Í fréttatilkynningu segir að hingað til hafi eistu 16 mismundandi dýrategunda verið elduð í keppninni, þeirra á meðal eru hestur, naut, strútur, kengúra, hákarl og svanur. Ekkert dýr er drepið í þessum tilgangi, heldur eru fengin eistu dýra sem þegar hefur verið slátrað.
Í tilkynningunni segir að íslenskt lið hafi haft í hyggju að taka þátt í keppninni í fyrra, en þurft að draga sig úr henni á síðustu stundu. Fari svo að borgarstjórinn taki áskoruninni hyggst Erovic leita leiða til að fá styrktaraðila svo kostnaðurinn verði sem minnstur.
Að auki hefur hann boðið Jóni að þiggja verðlaun sem á ensku nefnast: „Ballsiest Man of the Year Award“. Hann bætist þar í hóp mektarmanna, en áður hafa þeir Barack Obama og Julian Assange hlotið þennan titil.
„Við skorum á Íslendingana opinberlega núna, því við viljum vita hvort þeir séu nógu hugrakkir til að mæta,“ segir Erovic. Yfirdómari keppninnar, Anna Wexlar, segist ekki efast um að borgarstjórinn mæti til leiks og vonast til þess að hann komi með aukapar af eistum til eldunar.
Ekki liggur fyrir hvort Jón Gnarr borgarstjóri muni taka áskoruninni.