Vantraust í farvatninu

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Eggert

Allt frá því Jón Bjarnason neitaði að styðja fjárlögin skömmu fyrir jól hafa þingmenn Framsóknarflokksins íhugað að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Þau tíðindi hafa síðan orðið að Jón hefur sagt sig úr þingflokki VG og Ísland unnið sigur í Icesave-málinu. Telja framsóknarmenn hvort tveggja hafa aukið líkur á að tillaga um vantraust hljóti brautargengi. Verða næstu dagar því notaðir til að ræða við aðra stjórnarandstæðinga.

Mun niðurstaða þeirra viðræðna skera úr um hvort tillagan verður borin fram eða ekki.

Axli ábyrgð og segi af sér

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, telur stöðu stjórnarinnar hafa veikst eftir dóminn um Icesave.

„Það er eðlilegt að fólk hugsi núna hvort ríkisstjórnin eigi ekki að segja af sér og fara frá og axla þannig ábyrgð á framgöngu sinni í Icesave-málinu. Vitanlega ættu þingmenn að setja þrýsting á forystumenn ríkisstjórnarinnar. Það sama ætti íslenska þjóðin að gera og krefjast afsagnar þeirra, enda ætlaði þetta fólk ætlaði að demba nokkur hundruð milljörðum króna yfir þjóðina sem nú er búið að dæma að eigi ekki að borga,“ segir Gunnar Bragi.

„Nýtur einskis trausts“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur „að nú væri rétt að boða strax til kosninga“. „Það liggur fyrir og hefur legið fyrir lengi að þessi ríkisstjórn nýtur einskis trausts,“ segir Bjarni og rifjar upp vantrauststillögu sem hann lagði fram á þingi 2011, en hún var felld með 32 atkvæðum gegn 30. Lyktir Icesave hafi veikt stjórnina, enda hafi hún aldrei treyst þjóðinni til að eiga síðasta orðið í málinu.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðu stjórnarinnar hafa veikst.

„Það blasir við að ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta í þinginu og þarf að reiða sig á stuðning þingmanna í öðrum flokkum til þess að koma málum í gegnum þingið. Eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins er eðlilegt að sett sé spurningarmerki við pólitískra stöðu einstakra ráðherra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka