Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld lést í gær, 30. janúar, á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 74 ára að aldri. Þorkell var fæddur 16. júlí 1938, eitt átta barna biskupshjónanna Magneu Þorkelsdóttur og dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Þorkell hóf snemma nám við Tónlistarskólann í Reykjavik en eftir stúdentspróf frá MR 1957 hóf hann nám í tónsmiðum við Hamline-háskólann í Minnesota og síðan við Illinois-háskólann þaðan sem hann lauk meistaraprófi 1961. Sama ár kom hann heim og hóf störf við Tónlistarskólann í Reykjavík og kenndi þar allan starfsaldur sinn. Kenndi einnig í Listaháskólanum er hann var stofnaður. Hann var félagi í konunglegu sænsku tónlistarakademíunni og heiðursdoktor frá Hamline-háskólanum
Þorkell samdi rúmlega 300 tónverk, og mörg þeirra hafa verið gefin út á nótum og á hljómplötum. Meðal þeirra eru hljómsveitarverk, kammerverk, einleikskonsertar, barnaóperur , kammerópera sem og raf- og tölvutónlist að ógleymdum fjölda sálmalaga sem sannarlega hafa náð eyrum þjóðarinnar
Hann var formaður Tónskáldafélags Íslands um árabil, formaður Musica Nova 1964 - 67 og forseti Bandalags íslenskra listamanna 1982 - 86 Hann var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listahátíðar í Reykjavik um skeið. Hann var einn stofnenda og stjórnarformaður Íslenskrar tónverkamiðstöðvar 1968 -81. Hann var í stjórn STEFs um langt árabil
Hann var dagskrárfulltrúi hjá RÚV fyrr á árum en annaðist tónlistarþætti þar um 30 ára skeið, m.a hinn langlífa þátt Tómlist á atómöld.
Þorkell kvæntist Barböru Jane Powell á jólum 1959, en hún var um langt skeið skólastjóri skóla bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Börn þeirra eru: Mist Barbara, tónskáld og deildarforseti tónlistardeildar Listaháskólans, og Sigurbjörn verkfræðingur, einn stjórnenda Barclay's banka í London. Barnabörnin eru átta og eitt barnabarnabarn.