Hæstiréttur vísaði í dag máli olíufélaganna, Olíuverslunar Íslands hf, Skeljungs hf og Kers hf gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu frá héraðsdómi. Var þeim gert að greiða 15 milljónir króna til ríkisins í málskostnað fyrir Hæstarétti og í héraði og sömu upphæð til Samkeppniseftirlitsins.
Um er að ræða hið upphaflega olíusamráðsmál en Samkeppnisráð ákvað 28. október 2004 að leggja sektir á olíufélögin Esso (Ker hf.), Olís og Skeljung, eftir rannsókn Samkeppnisstofnunar sem hrundið var af stað með húsleit, haldlagningu skjala og afritun tölvutækra gagna á starfsstöðum félaganna 18. desember 2001.
Þeirri ákvörðun skutu félögin til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð í málinu 29. janúar 2005 og lækkuðu sektirnar í öllum tilvikum. Nefndin dæmdi olíufélögin til að greiða samtals 1.505 milljónir í sekt, sem þau greiddu með fyrirvara um lögmæti þeirra.
Félögin höfðuðu í kjölfarið mál og voru þau þingfest og sameinuð haustið 2005.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að svo miklir annmarkar væru á málsmeðferð í olíumálinu upphaflega að þeir leiði til þess að fella verði úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Íslenska ríkið var þá dæmt til að endurgreiða Keri hf., 495.000.000 króna, Skeljungi hf. 450.000.000 króna og Olíuverslun Íslands 560.000.000 króna.