Rétturinn til nafns friðhelgur

Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir var umsetin fjölmiðlum í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir var umsetin fjölmiðlum í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Réttur Blævar Bjarkardóttur Rúnarsdóttur til að bera nafnið Blær er ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að hafna kröfunni, að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, sem ógilti í morgun úrskurð mannanafnanefndar sem gerði það að verkum að Blær hefur heitið Stúlka í Þjóðskrá til 15 ára aldurs.

Í niðurstöðu dómsins er vísað til stjórnarskrár Íslands, þar sem segir í 1 mgr. 71. gr að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í íslenskum rétti hafi verið talið að réttur manns til nafns falli undir þetta ákvæði, enda séu þar um mikilvæg persónuleg réttindi hvers einstaklings að ræða. 

Þekkt fordæmi fyrir karlkynsorðum sem kvenmannsnöfn

„Rétturinn til nafns er ekki ótakmarkaður þar sem honum eru settar nokkrar skorður með [mannanafnalögum]. Í vissum tilvikum geta hagsmunir samfélagsins verið ríkari en réttur einstaklings til að velja sér nafn eða réttur foreldra til þess að fá að ráða nafni barns síns,“ segir í niðurstöðu dómsins. Í slíkum tilvikum hafi verið talið réttlætanlegt að skerða réttinn til nafngiftar skv. mannanafnalögum. 

Takmarkanir við nafngiftir verði þó að uppfylla þau skilyrði stjórnarskrárinnar að það sé aðeins heimilt ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Héraðsdómur fellst ekki á rök ríkisins fyrir því að það eigi við í tilfelli Blævar. Óumdeilt sé að Blær hafi verið gefið þetta nafn við skírn árið 1987 og hún alla tíð notað það óátalið. Allir ættingjar hennar og vini þekki hana aðeins sem Blæ. 

Héraðsdómur vísar einnig til þess að þekkt fordæmi séu hér á landi fyrir því að karlkyns nafnorð séu notuð sem kvenmannsnöfn, sbr. til dæmis nöfnin Ilmur og Apríl. Þá séu dæmi um að kvenkyns nafnorð hafi verið gefin karlmönnum, sbr. nafnið Sturla.

Samkvæmt skráningu þjóðskrár er nafnið Júlí, sem er karlkynsorð, borið af 1 konu og 5 karlmönnum og í 21. kafla Landnámabókar kemur nafnið Auður fyrir sem karlmannsnafn, þótt það sé kunnugra sem kvenmannsnafn. Af þessu má ljóst vera, að mati dómsins, að í ákveðnum tilvikum getur íslenskt nafn verið bæði karlmanns- og kvenmannsnafn.

Löggjafinn ákveður framhaldið

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sagði þegar hann flutti mál sitt að mannanafnanefnd hafi einfaldlega úrskurðað eftir lögum. Stórt skref væri fyrir dómstólinn að ákvarða að ekkert sé því til fyrirstöðu að nafn geti bæði verið karlkynsnafn og kvenkynsnafn. Það væri frekar löggjafans að taka á slíkum málum. Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Blær fái að heita Blær sé vikið frá íslenskri nafnahefð og um væri að ræða kaflaskil hvað nafngiftir varðar.

Í samtali við mbl.is eftir að dómur var upp kveðinn sagði Einar Karl að nú væri það innanríkisráðuneytisins, sem stefnanda, að fara yfir málið og ákveða hvort því verði áfrýjað.

Frétt mbl.is: Fær að heita Blær

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert