Ryanair tapaði máli vegna eldgossins

Gosið í Eyjafjallajökli leiddi til mikillar röskunar á flugumferð í …
Gosið í Eyjafjallajökli leiddi til mikillar röskunar á flugumferð í apríl 2010. mbl.is/Árni Sæberg

Evrópudómstólinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ryanair hafi verið skylt að bæta þann kostnað sem farþegar á vegum félagsins urðu fyrir þegar fella varð niður flug árið 2010 vegna ösku frá gosinu í Eyjafjallajökli.

Það var Denise McDonagh sem höfðaði málið en hún ætlaði að ferðast frá Faro í Portúgal til Dyflinnar á Írlandi. Vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli tafðist hún í sjö daga. Hún þurfti sjálf að bera kostnað af gistingu, ferðum og uppihaldi, samtals um 200 þúsund krónur. Hún krafðist þess að Ryanair yrði gert að greiða þennan kostnað.

Ryanair hefur haldið því fram að röskun á flugi vegna gossins í Eyjafjallajökli hafi verið svo umfangsmikil að almennar reglur um greiðslu kostnaðar vegna tafa í flugi ættu ekki við.

Evrópudómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þó að röskun á flugi hafi vissulega verið mjög mikil þá leysti það flugfélög ekki undan kvöðum um að greiða þann kostnað sem farþegar verða fyrir þegar flugferðum er aflýst. Í reglum ESB sé ekki að finna neinar undanþágur sem flugfélög geti vísað í vegna umfangsmikillar röskunar á flugi.

Þessi niðurstaða Evrópudómstólsins nær til allra flugfélaga sem starfa innan Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert