Fyrstu fjallabjörgunarmenn eiga nú eftir um 30 mínútur að þeim stað í Esjunni þar sem kona á göngu hrapaði fyrr í dag. Verulega erfiðar aðstæður eru á staðnum og sækist leiðin hægt, enda um kletta með ís og snjó að fara, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.
Búið er að senda um 25 fjallamenn á staðinn auk þess er verið að reyna að komast nálægt staðnum á tveimur vélsleðum, þremur fjórhjólum og snjóbíl. Ólíklegt er þó talið að þessi tæki komist nálægt staðnum.
Í viðbót við þetta eru um 20 aðrir björgunarveitarmenn í biðstöðu við rætur Hátinds tilbúnir til að fara upp til aðstoðar ef á þarf að halda. Á þessari stundu er ekkert nánar vitað um ástand þess sem hrapaði.
Í viðbót við erfiðar aðstæður á staðnum er mjög slæmt veður, snjókoma, hvasst og skyggni innan við eitt hundrað metrar.
Frétt mbl.is: Slasaðist í Esjunni