Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út skömmu fyrir klukkan þrjú eftir að kona slasaðist í Esjunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu, en treystir sér ekki til að taka á loft sökum veðurs. Sjúkrabíll hefur verið sendur á staðinn.
Sjúkraflutningamenn þurfa síðan að ganga eða fara á sexhjóli upp Þverárkotsháls að staðnum þar sem konan liggur slösuð. Hún var í hópi göngumanna.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu slasaðist konan við fall. Ekki er vitað um meiðsli hennar.
Uppfært kl.15:41 skv. upplýsingum frá Landsbjörg:
Fyrstu fregnir benda til þess að konan hafi hrapað nokkur hundruð metra við Hátind, austarlega í Esju. Mjög erfiðar aðstæður eru á staðnum og munu eingöngu vanir fjallamenn sinna verkefninu enda bæði slæmt veður og möguleg snjóflóðahætta. Verið er að skoða hvort hægt sé að nýta vélsleða og snjóbíla til aðstoðar en ólíklegt er að þyrla komist vegna veðurs.