Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins harmar ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að ákveða eigin makrílkvóta fyrir árið 2013. Kvótinn nemur alls um 123.182 tonnum og er 15% minni en á síðasta ári, eins og fram kom í gær.
„Við hörmum að Ísland hafi einhliða ákveðið sinn eigin kvóta án samráðs, enn eitt árið,“ segir í yfirlýsingu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi frá sér í kjölfar ákvörðunarinnar.
„Fullyrðing Íslendinga um að dregið sé úr kvótanum felur þá staðreynd að einhliða kvóti Íslands er óhóflega hár, bæði áður og eftir að hann var minnkaður.“ Í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar segir enn fremur að vísindarannsóknir bendi til þess að nauðsynlegt sé að draga úr makrílveiðum.
Samkvæmt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er áætlað að árið 2012 hafi heildarveiði Evrópusambandsins, Noregs, Íslands, Færeyja og Rússlands á makríl verið 920 þúsund tonn og nam veiðihlutur Íslands um 16%. Færeyjar og Rússland hafa ekki gefið út makrílkvóta vegna ársins 2013 en ef báðar þjóðirnar minnka sína veiði um 15% eins og Noregur, ESB og ísland hafa gert mun hlutur Íslands haldast um 15%.