Fann tvo lambhrúta í Gæsadal

Hrútarnir voru klakabrynjaðir. Þeir voru bundnir niður í skúffu á …
Hrútarnir voru klakabrynjaðir. Þeir voru bundnir niður í skúffu á fjórhjóli. Ljósmynd/Daði Lange Friðriksson

„Ég var bara að leika mér á vélsleða þegar ég rakst á hrútana í svokölluðum Gæsadal,“ segir Daði Lange Friðriksson sem í gær fann tvo lambhrúta í Gæsadal í S-Þingeyjarsýslu.

Daði hringdi eftir aðstoð til að hægt væri að klófesta hrútana. „Það gekk vel að ná hrútunum. Þeir voru mjög klakabrynjaðir og þungir á sér,“ sagði Daði.

Daði sagði að annar hrúturinn hefði verið frekar horaður, en hinn í þokkalegum holdum. Annar hrúturinn var frá Hellu í Mývatnssveit en hinn frá Kraunastöðum í Aðaldal. Daði sagði að þeir væru farnir að éta og ættu vafalaust eftir að braggast í vetur.

Daði segir enga leið að vita hvernig hrútarnir hafi haft það í vetur, en 10. september gerði, sem kunnugt er, mikið hríðarveður og drapst þá talsvert mikið af sauðfé á Norðurlandi. Daði segir að búið hafi verið að leita mjög mikið á þessu svæði og rjúpnaskyttur hafi verið þar á ferð í vetur. Talsvert af dauðum kindum fannst einmitt í Gæsadal.

Þess má geta að móðir hrútsins frá Kraunastöðum skilaði sér lifandi af fjalli, en systir hans ekki. Móðir og bróðir hrútsins frá Hellu skiluðu sér hins vegar bæði lifandi af fjalli.

Sagt var frá þessu máli á vefnum 641.is

Birgir V Hauksson og hundurinn Skuggi hjálpuðu Daða að handsama …
Birgir V Hauksson og hundurinn Skuggi hjálpuðu Daða að handsama hrútana. Ljósmynd/Daði Lange Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka