Ingvar P. Guðbjörnsson -
Heimildir mbl.is herma að Íslendingurinn sem ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari hafi til rannsóknar og tengist WikiLeaks sé sá hinn sami og sagði í útvarpsþættinum The Documentary á BBC þann 1. janúar 2013 að hann hefði 12 ára gamall hakkað sig inn í tölvukerfi stjórnarráðsins.
Fréttavefur RÚV greindi frá málinu 2. janúar á þessu ári. Maðurinn sagði í viðtalinu að hann hafi verið starfsmannastjóri WikiLeaks og gengið undir nafninu Q, en í viðtalinu var hann kallaðir Siggi. Þetta vekur athygli fyrir þær sakir að maðurinn var einungis 18 ára haustið 2011 þegar yfirheyrslur FBI áttu að fara fram hér á landi í tengslum við viðvaranir bandarísku alríkislögreglunnar um að hætta væri á tölvuárás á upplýsingakerfi Stjórnarráðsins.
Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks hér á landi, sagði í samtali við visi.is 2. janúar 2013, að enginn starfsmannastjóri væri starfandi hjá WikiLeaks og hélt því fram að fréttamaður BBC hefði látið blekkja sig.