Vísar öllum tengslum á bug

Kristinn Hrafnsson, blaðamaður og talsmaður Wikileaks hér á landi.
Kristinn Hrafnsson, blaðamaður og talsmaður Wikileaks hér á landi. AFP

„Mér þætti fróðlegt að vita hvað hafi komið út úr þessari rannsókn og ef ekkert hefur komið út úr henni hvað hún segi til um upphaflegt tilefni þessa fjaðrafoks,“ sagði Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks hér á landi, varðandi rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI hér á landi árið 2011 vegna meintra tengsla WikiLeaks við tölvuárásir á stjórnarráðið.

„Svo mættu menn hafa það í huga hvaða tilgangi það ætti yfir höfuð að þjóna að gera tölvuárás á tölvukerfi stjórnarráðsins og hvaða alþjóðlegu hagsmunir þar væru í húfi - ég bara spyr,“ sagði Kristinn.

Vísar á bug tengslum við alþjóðlega tölvuhakkara

Hann vísar því alfarið á bug að einhver tengsl kunni að vera á milli samtakanna og alþjóðlegra samtaka tölvuhakkara og einni að Wikileaks hafi haft í hyggju að hakka sig inn í tölvukerfi stjórnarráðsins.

Í samantekt ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara um mál frá árinu 2011 þar sem bandaríska alríkislögreglan FBI sendi fulltrúa hingað til lands til að yfirheyra og rannsaka tengsl samtakanna við mál tengt stjórnarráðinu kom fram að ennþá væri til rannsóknar hérlendis þar sem grunur væri um alvarleg brot sem beindust gegn íslenska ríkinu og vísbendingar væru um að Íslendingur og erlendir aðilar með tengsl við WikiLeaks-samtökin ættu þar hlut að máli.

Kristinn segir WikiLeaks vera samtök sem birti upplýsingar sem þau fái í hendur gegnum nafnlausa aðila, en ekki með þeim hætti sem lýst sé í fréttinni.

Voru í tæpa viku án formlegra tengsla við yfirvöld

Kristinn segir það vekja mikla athygli að í tæpa viku eftir að formlegri rannsókn íslenskra lögreglumanna hafi lokið 2011 hafi FBI haldið áfram rannsóknarstörfum hér með vitneskju og samþykki hérlendra stjórnvalda.

„Mér finnst það grafalvarlegur hlutur. Innanríkisráðherra hefur látið hafa eftir sér í innlendum og erlendum fjölmiðlum að hann hafi litið svo á að það samrýmdist ekki hugmyndum um Ísland sem sjálfstætt ríki að þessir menn væru hér að valsa um í rannsóknarerindum,“ segir Kristinn.

„Þeir hinsvegar halda því áfram eftir að búið er að slíta samskipti og aðkomu innlendra löggæsluaðila í að minnsta kosti heila fimm daga á eftir en þó með fullri vitneskju og vitund þessara aðila. Mér finnst það grafalvarlegt mál og megin punkturinn í þessu sem þarna kemur fram,“ segir hann.

Segir tölvuöryggismál ríkisins í lamasessi

„Ég bara bendi á fáránleika málsins í heildarsamhengi því að sjálfur lýsti ég því yfir opinberlega í fyrra að íslenska ríkið, í umræðuþætti eða umræðuumfjöllun um tölvuöryggismál, að það væri almenn vitneskja innlendra aðila sem og erlendra sérfræðinga sem hafa bent á það hér á ráðstefnum að tölvuöryggismál íslenska ríkisins væru í lamasessi og þau bæri að bæta. Ég var að hvetja til þess að gerðar yrðu úrbætur á því sviði,“ sagði Kristinn og bætir við: „Menn geta svo rétt reynt að gera sér í hugarlund hvernig það rímar saman við þessa einkennilegu tengingu sem þarna er verið að ýja að í þessari yfirlýsingu.“

Spurður að því hvort hann viti til hvaða einstaklinga sé verið vísa í samantektinni segir hann: „Það er verið að vísa þarna til einhverra alþjóðlegra samtaka tölvuhakkara. Ég bara vísa því á bug að við séum tengdir við einhver alþjóðleg samtök tölvuhakkara.“

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Hjörtur
Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert