Matvælastofnun hefur metið niðurstöður flúormælinga og skoðana á lifandi dýrum og beinum sláturdýra á áhrifasvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði. Stofnunin telur að ekki sé hægt að útiloka að hár styrkur flúors í grasi sumarið 2012 geti síðar haft neikvæð áhrif á tannheilsu dýra og hefur óskað eftir að vöktun verði aukin á svæðinu. Ekki er tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.
Undanfarnar vikur og mánuði hafa Matvælastofnun borist niðurstöður flúormælinga á áhrifasvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði auk niðurstaðna skoðana á lifandi dýrum og beinum sláturdýra.
Styrkur flúors fór langt yfir viðmiðunarmörk
Matvælastofnun hefur metið niðurstöðurnar með tilliti til áhrifa á heilbrigði og velferð dýra og telur að ekki sé hægt að útiloka að ung dýr sem voru á beit þar sem styrkur flúors í grasi fór vel yfir viðmiðunarmörk hafi tekið upp það mikinn flúor að það gæti síðar haft áhrif á tannheilsu. Ef ungviði fær of mikinn flúor þegar glerungur tannanna er að myndast, þ.e. frá fæðingu og fram að tannskiptum, skapast hætta á að glerungurinn fái ekki eðlilegan styrk og er þá hætta á tannskemmdum síðar á ævinni.
Matvælastofnun telur að ástæða sé til að fylgjast með tönnum líflamba og ungra kinda, folalda og tryppa (1-4 vetra á árinu 2012), ásetningskálfa, kvíga og ungra mjólkurkúa.
„Erfitt getur reynst að greina einkennin fyrr en einu til tveimur árum eftir að flúoreitrun hefur átt sér stað og því ekki ástæða til skoðunar fyrr en að þeim tíma liðnum,“ segir á vef Matvælastofnunar.
Sýni sem tekin voru úr heyi reyndust undir mörkum og því er það hæft sem fóður. Það er ekki tilefni til að hafa áhyggjur af dýrunum að svo stöddu en passa verður vel upp á að ungviðið fái ekki fóður (gras og hey) yfir viðmiðunarmörkum í framtíðinni.
Af þessum ástæðum hefur Matvælastofnun óskað eftir því við Umhverfisstofnun að vöktun verði aukin, m.a. með fleiri sýnatökustöðum og skoðun beina úr sláturgripum af svæðinu.