„Þetta snýst bara um pólitík“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Ég fordæmi í fyrsta lagi auðvitað afskipti stjórnvalda af þessari lögreglurannsókn sem greinilega teygir sig til fleiri landa. Það er furðulegt að þetta hafi fyrst verið heimilað og síðan skyndilega dregið til baka samkvæmt fyrirskipun innanríkisráðherra. Ég tel alveg liggja fyrir að þetta er pólitísk ákvörðun,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.

Eins og fjallað hefur verið um krafðist Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þess að öllu samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við bandarísku alríkislögregluna FBI í ágúst 2011, vegna rannsóknar hér á landi meðal annars vegna mögulegrar árásar á tölvukerfi Stjórnarráðsins, yrði hætt. Samstarfið mun þá hafa staðið yfir í um tvo mánuði, meðal annars með aðkomu innanríkisráðuneytisins. Var rannsóknin stöðvuð á þeim forsendum að hún félli utan réttarbeiðni sem bandarísku lögreglumennirnir höfðu lagt fram og verið samþykkt af yfirvöldum hér á landi.

Vigdís bendir á að það sé ekki innanríkisráðuneytisins að fjalla um það hvort slíkar rannsóknir falli utan við fyrirliggjandi réttarbeiðnir eða ekki heldur sé það hlutverk ríkilögreglustjóra að sjá um það. „Það er sjálfstæð stofnun og framkvæmdavaldið getur ekki gripið þarna inn í enda hefur það ekki forsendur til þess að leggja mat á það.“

„Því miður verður ekki betur séð en að þetta sé einfaldlega hluti af því að reyna að halda þessari ríkisstjórn saman, eins og svo margt annað, sama hvað það kostar. Koma til móts við ákveðna áhangendur Hreyfingarinnar og tryggja þannig að þingmenn flokksins láti ekki af stuðningi sínum við ríkisstjórnina sem eins og allir vita er formlega orðin að minnihlutastjórn. Rétt eins og í stjórnarskrármálinu. Þetta snýst bara einfaldlega um pólitík,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert