Vítisenglar á ólöglegum veitingastað

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglumenn framkvæmdu húsleit í Síðumúla í Reykjavík í dag. Þetta var gert í kjölfar alvarlegrar líkamsárásar sem var framin í morgun. Maðurinn sem ráðist var á var fluttur á slysadeild með alvarlega áverka á höfði. Í húsnæðinu er rekinn ólöglegur veitingastaður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að á billinu 25 til 30 manns hafi verið inni á staðnum þegar lögreglu bar að garði í morgun. Lögreglumenn framkvæmdu húsleit og lögðu hald á töluvert magn af áfengi og fíkniefnum.

Þá segir lögreglan, að bifhjólasamtökin Hells Angels hafi nýlega komið sér fyrir í húsnæðinu.

Að sögn lögreglu voru þrír liðsmenn Hells Angels handteknir nú síðdegis í tengslum við rekstur staðarins. Einn var handtekinn í morgun í tengslum við líkamsárásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka