Hetjan sem hlaut dularfull örlög

Í áratugi hefur leyndarljómi umlukið nafn flugkonunnar Ameliu Earhart, sem hvarf sporlaust á flugi yfir Kyrrahafinu í júlí árið 1937. Hún var fyrsta konan til að fljúga yfir Atlantshafið, en vann líka fjölmörg önnur afrek og var fyrst karla og kvenna til að fljúga yfir Kyrrahafið, frá Kaliforníu til Havaí.

Það gerði hún fyrir 78 árum, 11. janúar 1935. Að sjálfsögðu greindi Morgunblaðið frá þessu afreki, líkt og öðrum stóratburðum innanlands og utan.

Í frétt blaðsins, 15. febrúar 1935 segir undir fyrirsögninni „Hetjan“ að Earhart hafi látið sem minnst uppi um fyrirætlanir sínar varðandi þetta flug. Þegar eiginmaður hennar frétti að það hefði gengið vel sendi hann henni heillaóskaskeyti þar sem sagði: „Þetta var þrekvirki, en leggðu það ekki í vana þinn“.

Flugkonur heiðruðu Earhart

En Earhart er síður en svo gleymd og grafin. Meðal þeirra sem halda minningu hennar á lofti eru íslenskar flugkonur sem efndu til afmælisflugs í fyrrasumar í tilefni af því að þá voru 115 ár liðin frá fæðingu hennar. Ein þeirra er Þura Sigríður Garðarsdóttir flugmaður sem segir að flugfólk viti almennt hver þessi afrekskona var.

„Við flugum á Hellu 24. júlí sem var afmælisdagur Ameliu Earhart og þar var konunglega tekið á móti okkur,“ segir Þura. „Við fögnuðum þessari konu, sem gerði okkur kleift að komast þangað sem við erum.“

Sjálf hefur hún velt örlögum Earhart fyrir sér. „Ein umfangsmesta leit sem gerð hefur verið var gerð að henni. Það má segja að þetta sé eins og með Íkarus, vængirnir bráðnuðu af honum þegar hann flaug of nálægt sólinni. Ég held að hún hafi farið niður á svipuðum slóðum. Þannig að hún hvílir kannski einhvers staðar með Íkarusi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert