Umbrot við suðurenda Kleifarvatns og á Sveifluhálsi gætu endað með eldgosi. Síðustu ár hefur spenna byggst þar upp og ástandið er viðvarandi. Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur. Hann segir að svo gæti líka farið að virknin fjaraði út, án eldsumbrota eða annarra náttúruhamfara.
„Maður getur velt upp ýmsum hlutum, en engu er hægt að slá föstu. En þetta er þéttbýlasta svæði landsins og vel virkt. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, en fólki bregður kannski þegar það er minnt á þetta. En margir þarna hafa áhyggjur af jarðskjálftum og eldgosum,“ segir Ari Trausti.
Hann segir að langvinnar goshrinur hafi orðið á Reykjanesskaganum fyrir 800 -900 árum. „Þær stóðu í áratugi, þar á undan gaus þarna fyrir 500-1000 árum. Þannig að tíðnin virðist vera á þessu bili. En það er ekkert hægt að fullyrða, þetta gæti verið innan áratuga eða mjög fárra alda.“
Almannavarnir vinna nú að undirbúningi viðbragðsáætlunar fyrir Reykjanesskagann. Þar er meðal annars brottflutningsáætlun; hvernig fólk verði flutt á brott og þá hvert. Einnig er þar hugað að viðbrögðum við því ef raflínur eða vatnslagnir rofna.
„Núorðið er búið að rannsaka eldstöðvakerfin svo vel, að þau eru mjög vel þekkt. En þetta eru ólíkindatól og margir óvissuþættir. Það munu verða eldgos í einhverju af þeim eldstöðvakerfum sem eru á Reykjanesinu, en við vitum ekki hvar eða hvenær. Það tók Eyjafjallajökul t.d. 16 ár frá því að hann sýndi merki um að gos væri í vændum og þar til þar gaus. Svo voru svipaðar pælingar með Hengil fyrir um 10-15 árum, en þar varð aldrei gos.“