Enn stefnt að nýrri stjórnarskrá

Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir Morgunblaðið/Frikki

Ríkisstjórnin hefur ekki hvikað frá þeim ásetningi sínum að leggja stjórnarskrárfrumvarpið fyrir þingið. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, staðfesti þetta að loknum þingflokksfundi Samfylkingar fyrir stundu. Mikil spenna var í alþingishúsinu í dag.

Notaði Valgerður tækifærið til að gagnrýna umfjöllun fjölmiðla um stjórnarskrármálið um nýliðna helgi, þar með talið af hálfu Morgunblaðsins. Sú umfjöllun væri ekki reist á réttum upplýsingum. Þá sagði hún að álit Feneyjanefndarinnar um stjórnlagafrumvarpið kæmi í hús á hverri stundu.

Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra né Árni Páll Árnason, nýbakaður formaður Samfylkingar, vildu tjá sig um málið. Þá vildi Össur Skarphéðinsson ekki ræða málið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gaf heldur ekki kost á viðtali.

Ekkert hefur breyst

Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingu, tók í sama streng og Valgerður og sagði ekkert hafa breyst í málinu.

Þór Saari, Hreyfingunni, gaf hins vegar kost á viðtali.

Hann fór hörðum orðum um ríkisstjórnina og frammistöðu hennar með þeim orðum að hún mætti „fara til fjandans“ ef stjórnarskrárfrumvarpið færi ekki áfram inn í þingið. Ríkisstjórn VG og Samfylkingar væri „ein versta ríkisstjórn Íslandssögunnar“.

Lýsti hann jafnframt yfir megnri óánægju með að fiskveiðistjórnunarfrumvarpið skyldi fara inn í þingið og stjórnarskrármálið sett til hliðar. Fyrrnefnda frumvarpið væri klæðskerasaumað að óskum LÍÚ.

Sagði hann andrúmsloftið í þinghúsinu spennuþrungið.

Mikil spenna var í þinghúsinu og voru nokkrir þingmenn Samfylkingar augljóslega í uppnámi að loknum fundi þingflokksins. Mörður Árnason, Kristján Möller og Oddný Harðardóttir vildu ekki ræða málið né heldur deilu hjúkrunarfræðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert