Þráinn hótar að hætta að styðja stjórnina

Þráinn Bertelsson þingmaður, rithöfundur og leikstjóri.
Þráinn Bertelsson þingmaður, rithöfundur og leikstjóri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér þykir það nú bara merkilegt að það skuli yfirleitt mælast fylgi hjá flokknum eftir öll þessi rassaköst á stjórnartímabilinu,“ segir Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, um dræmt gengi flokksins í könnunum. Hann segist munu hætta að styðja ríkisstjórnina ef stjórnlagafrumvarpið nær ekki í gegn.

Þráinn telur ríkisstjórnina hafa brugðist á síðari hluta kjörtímabilsins en í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag, fullyrðir Þór Saari, fyrrverandi flokksbróður Þráins í Hreyfingunni, að ríkisstjórn VG og Samfylkingar sé ein versta ríkisstjórn lýðveldistímans.

Þráinn er ósáttur við þann farveg sem stjórnarskrármálið er komið í.

„Ég hef áhyggjur af gangi þessa máls. Það hefur tekið mjög langan tíma að vinna í þessu. Nú er komið alveg prýðilegt frumvarp. Annaðhvort fer það í gegn og verður lagt fyrir þjóðina eins og þjóðin fór fram á og á heimtingu á, eða þá að ég sé ekki mikinn tilgang í að þessi stjórn sitji öllu lengur. Ef hún hefur ekki bolmagn til að koma þessu í gegn að þá er nú ekki mikilla afreka að vænta og tímabært að fara að huga að næstu ríkisstjórn með kosningum.“

Sæi ekki ástæðu til að styðja stjórnina

- Viltu þá að efnt verði til kosninga fyrr en stefnt er að 27. apríl?

„Menn finna út úr því hvað ráðlegt er og nauðsynlegt í því efni. Það sem ég er að segja er að ég sé þá enga ástæðu til að styðja lengur þessa ríkisstjórn sem ég hef vissulega reynt að styðja af ráðum og dáð af því að ég hélt að hún væri að gera gagn. Þá finnst mér gagnsemi hennar vera lokið.

Ég hef það sem af er þessu kjörtímabili verið sannfærður um að þessi ríkisstjórn, þó að hún hafi ekki eingöngu verið að gera hluti sem eru mér að skapi, hafi verið langbesti kosturinn í stöðunni og stutt hana þess vegna. Þess vegna hef ég kyngt ýmsu sem mér hefur ekki þótt sérstaklega lystugt og hef líka kyngt heilmiklu aðgerðaleysi á sviðum þar sem mér finnst að hún hefði átt að láta meira til sín taka. Þannig að ef það á að fara að semja um stjórnarskrármálið, stunda einhver hrossakaup, sjónhverfingar eða slíkt að þá er þessum skilyrðislausa stuðningi mínum allavega lokið.“

- Mundu þá gerast óháður þingmaður?

„Ég veit það ekki, hef ekki hugsað út í það. Ég myndi allavega verða óháðari með því að sjá fyrir endann á þessum skilyrðislausa stuðningi. Ég ætla ekki að fara að ganga úr þingflokknum með einhverjum látum. Það er ekki ég sem skipti máli.“

Engar lausnir í sjónmáli

- Þú nefnir aðgerðaleysi. Á hvaða sviðum hefur þér sárnað að það skyldi ekki hafa verið meira gert?

„Mér svíður það til að mynda afskaplega sárt að það skuli ekki hafa verið komið í gegn neinum af þessum stóru málum. Engu hefur verið breytt í sambandi við fiskveiðistjórnunarmálið, kvótamálið, sem í upphafi kjörtímabils átti að verða alveg lykilatriði. Mér finnst líka dálítið erfitt að horfa upp á það að það eru mér vitanlega engar lausnir á borðinu eða áætlanir um hvenær þessi gjaldeyrishöft verða lögð niður. Það er ekki heldur til marks um mikla snilld eða réttlætiskennd að hinir áhættusæknu sem tóku gengislán skuli hafa fengið leiðréttingu, en eftir sitja hinir varkárari með verðtryggingarsnöruna um hálsinn.

Mér finnst það líka heldur skítt og í raun óþolandi að þessi flokkur sem ég gekk til liðs við þegar Borgarahreyfingin var að liðast sundur, VG, skuli hafa, þvert ofan í þann stjórnarsáttmála sem ég hélt að þessi flokkur væri bundinn af, tekið það upp hjá sér að frysta viðræðurnar við Evrópusambandið. Ég hélt að það væru alveg hreinar línur með það að það stæði til að klára þennan samning og leggja hann fyrir þjóðina svo þjóðin þurfi ekki að rífast um það næstu áratugi hvaða samningur hefði getað náðst ef við hefðum ekki gefist upp á lokasprettinum,“ segir Þráinn og víkur að gjaldmiðlinum.

Íslenskt launafólk tekur skellinn

„Með þessum rammfalska einleik á krónuna hefur gengi krónunnar fallið svo að að laun hér á landi hafa lækkað um meira en 50%. Þannig er íslenskt launafólk vitanlega að taka á sig að borga það sem borgað verður af því stórkostlega efnahagsráni sem hér var framið, þann hluta þess sem við höfum ekki af fullkomnu samviskuleysi látið útlendinga súpa seyðið af. Ég er ekkert sérstaklega glaður með gang mála.

Þótt það séu miklar sveiflur í skoðanakönnunum upp og niður er það náttúrulega svo að þessi stjórn hefur gert góða hluti í að taka við þjóðfélagi sem var búið að leggja í efnahagslega rúst og koma því á lappirnar aftur. Það er umtalsvert afrek, en hins vegar seinnipart kjörtímabilsins hefur stjórnin ekki staðið undir væntingum og ekki lokið þeim verkefnum sem hún átti að ljúka. Léleg útkoma í skoðanakönnunum er til marks um útbreidd vonbrigði.“

Merkilegt að nokkuð fylgi mælist

- Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir ykkur í VG að flokkurinn hefur í nokkrum könnunum mælst með minna en 10% fylgi?

„Mér þykir það nú bara merkilegt að það skuli yfirleitt mælast fylgi hjá flokknum eftir öll þessi rassaköst á stjórnartímabilinu. Hátt í hálfur þingflokkurinn er farinn og hörðust andstaða við stjórnina í þessum flokki. Það er ekki sérlega trúverðugt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka