Afskiptin ekki óeðlileg

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það hafa verið misminni hjá sér að fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar FBI hafi farið af landi brott daginn eftir að hann var upplýstur um veru þeirra hér á landi í ágúst 2011. Hann telur afskipti sín af rannsókn FBI hér á landi hafa verið eðlileg.

Komið hefur fram að fulltrúar FBI voru að störfum hér á landi í tæpa viku eftir að innanríkisráðherra hafði fyrirskipað íslensku lögreglunni að taka ekki þátt í rannsókn Bandaríkjamannanna á tölvuárás á Stjórnarráðið þann 25. ágúst árið 2011 og að fulltrúar FBI færu af landi brott.

„Ég taldi að þeir hefðu farið fyrr af landi brott en við nánari skoðun á gögnum þá var staðreyndin sú að þeir voru nokkra daga til viðbótar og mér átti að vera kunnugt um það. Það var mitt misminni og ekki við neinn annan að sakast,“ sagði Ögmundur að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem hann kynnti greinargerð sína um málið. Hann verður einnig gestur á sameiginlegum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar nú í hádeginu um málið.

Hann segir að eftir þann 25. ágúst hafi íslenska lögreglan ekki átt í neinu samstarfi við FBI að því er hann best viti.

„Það má segja að öllum sé heimilt að vera á landinu, hvort sem þeir eru starfandi lögreglumenn eða ekki. Við ætluðumst hins vegar til þess að þeir sinntu ekki lögreglustörfum hér. Þegar mér varð kunnugt um að þeir væru enn á landinu boðaði ég til fundar með ráðuneytisstjórum innan- og utanríkisráðuneytanna og í kjölfarið var fundur með bandaríska sendiráðinu. Fulltrúar FBI hurfu svo af landi brott, að ég held 30. ágúst,“ segir Ögmundur.

Réttarbeiðnin rúmaði ekki seinni heimsókn FBI

Samkvæmt yfirlýsingu ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara lagði FBI fyrst fram formlega réttarbeiðni til íslenskra stjórnvalda vegna rannsóknar á tölvuárásinni hér á landi þann 4. júlí 2011 og var hún veitt. Það var svo þann 23. ágúst sem íslenska lögreglan fékk að vita að íslenskur maður hefði gefið sig fram við bandaríska sendiráðið og sagt hafa upplýsingar sem vörðuðu árásina. Samþykktu íslensk yfirvöld þá að fulltrúar FBI kæmu hingað til að ræða við manninn.

Ögmundur telur ekki að afskipti sín og utanríkisráðherra af störfum lögreglu og ríkissaksóknara í tengslum við rannsóknina og samstarf við FBI hafa verið óeðlileg.

„Það er ráðuneytisins og ráðherra að meðhöndla réttarbeiðnir sem koma erlendis frá, samkvæmt lögum er það í okkar höndum. Þegar við teljum að hér séu komnir fulltrúar til starfa frá erlendu ríki án þess að það liggi fyrir réttarbeiðni í samræmi við komu þeirra er eðlilegt að ráðuneytið hafi afskipti af því. Við bentum á að réttarbeiðnin sem lægi fyrir frá því í júní rúmaði ekki þessa heimsókn. Það var eðlilegt að á það væri bent og afskipti höfð af því,“ segir Ögmundur.

Hélt áfram að ræða við FBI.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert