FBI hafði ekki leyfi til að koma

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Skilningur innanríkisráðuneytisins var sá að ekki hefði verið veitt leyfi fyrir komu fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar FBI hingað til lands í ágúst 2011 til þess að ræða við íslenskan mann sem sagðist hafa upplýsingar um tölvuárás á Stjórnarráðið. Þetta kemur fram í minnisblaði sem innanríkisráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi og á sameiginlegum fundi eftirlits- og stjórnskipunarnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í dag.

Þar kemur auk þess fram að fulltrúar FBI hefðu óvænt boðað komu sína til landsins eftir að maðurinn gaf sig fram við bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Í yfirlýsingu sem ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari sendu frá sér í byrjun þessa mánaðar var því haldið fram að fulltrúar FBI hefðu óskað eftir að fá að koma til Íslands til að ræða við manninn og að sú ósk hefði verið samþykkt. Í minnisblaði innanríkisráðherra segir að ráðuneyti hans hafi hins vegar lagt annan skilning í það atriði og að ekki hafi verið veitt leyfi fyrir komu FBI-mannanna.

Að morgni 25. febrúar hafi ríkissaksóknari gert ráðuneytinu grein fyrir tilgangi ferða FBI-fulltrúanna, þ.e. að  fá frá manninum upplýsingar og afla sönnunargagna vegna rannsóknar á því máli sem, að mati ríkissaksóknara, fyrirliggjandi réttarbeiðni laut að og að sú rannsókn væri hluti af sakamálarannsókn í Bandaríkjunum sem beindist  m.a. að Wikileaks.

Í ljósi þessara upplýsinga um tilgang komu bandarísku fulltrúanna hingað til lands yfirfór ráðuneytið að nýju réttarbeiðnina sem barst í lok júní að því er segir í minnisblaðinu. Að þeirri yfirferð lokinni, samdægurs, óskaði innanríkisráðherra eftir fundi með ríkissaksóknara þar sem hann gerði grein fyrir því, að eftir frekari athugun málsins væri það mat ráðuneytisins að fyrirhugaðar aðgerðir FBI hér á landi rúmuðust ekki innan efnis réttarbeiðnarinnar frá því í lok júní 2011, enda vörðuðu aðgerðirnar rannsókn á öðru sakamáli en því sem réttarbeiðnin laut að.

Jafnframt setti ráðherra sig í samband við fulltrúa ríkislögreglustjóra og gerði þeim grein fyrir framangreindri niðurstöðu og fór þess á leit að lögreglan tæki ekki lengur þátt í aðgerðum bandarískra yfirvalda.

Í framhaldinu upplýsti innanríkisráðherra m.a. utanríkisráðherra um málið. Þegar í ljós kom síðar að fulltrúar FBI voru enn að störfum hér á landi hinn 29. ágúst 2011 boðaði innanríkisráðherra til fundar með ráðuneytisstjórum utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis til að fara yfir stöðu málsins og ítreka athugasemdir við veru FBI hér á landi. Í kjölfar þessa kom utanríkisráðuneytið þeirri ósk á framfæri við sendiráð Bandaríkjanna að fulltrúar FBI ræddu ekki frekar við upplýsingaaðilann hér á landi og að ekki væri talið eðlilegt að þeir væru við lögreglustörf á Íslandi. Í framhaldi þess yfirgáfu þeir landið.

Minnisblað innanríkisráðherra um komu bandarísku alríkislögreglunnar til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert