Greinir á um Guðlaug Þór

Gunnar Andersen í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Gunnar Andersen í Héraðsdómi Reykjavíkur. Styrmir Kári

Saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, var mótfallinn því að verjandi Gunnars fengi að leiða fyrir dóminn fjögur tiltekin vitni. Kemur það því í hlut dómara að skera úr um ágreininginn en málflutningur um kröfuna fór fram í morgun.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Gunnari og Þórarni Má Þorbjörnssyni, starfsmanni Landsbankans, sumarið 2012. Þeir eru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd. Gunnar er talinn hafa nýtt sér aðstöðu sína til að ná í upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í gegnum Þórarin Má. Þeim gögnum var komið til Ársæls Valfells, lektors við Háskóla Íslands, sem aftur kom þeim til DV sem birti frétt byggða á gögnunum.

Ársæll sagði í yfirlýsingu sem send var út 12. mars 2012 að starfsmaður Landsbankans hefði bankað á dyr heima hjá honum með gögn sem áttu að fara til Gunnars. Hann hefði haft samband við Gunnar sem bað hann að koma gögnunum til fréttastofu DV.

Telur að upplýsa þurfi um færsluna

Í morgun var tekist á um þá kröfu verjanda Gunnars að fá að leiða fyrir dóminn Hauk Þór Haraldsson, sem var yfir reikningshaldi Landsbankans, Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Guðlaug Þór og eiginkonu hans Ágústu Johnson.

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Gunnars, sagði máli sínu til stuðnings að Haukur Þór gæti borið um hvernig bókhaldi bankans var háttað og hvort umrædd gögn séu úr bókhaldinu. Þá geti hann væntanlega upplýst um meint viðskipti Bogmannsins ehf., félags Guðlaugs og Ágústu, og hvernig þau voru færð í bókhaldi bankans.

Gögnin sem um ræðir í málinu varða Bogmanninn og 32,7 milljón króna greiðslu Landsbankans til félagsins 13. júní 2003. 

Í ræðu sinni sagði Guðjón Ólafur að Sigurjón hefði verið bankastjóri þegar umrædd viðskipti áttu sér stað og hann gæti því væntanlega borið um það hvort þau hefðu yfirleitt farið fram, hver þau hefðu verið og hvort lýsing í ákæru á viðskiptunum væri rétt eða ekki. 

Hvað Guðlaug Þór varðar sagði Guðjón Ólafur að hann gæti upplýst dóminn um það hvort hann hefði verið eigandi Bogmannsins þegar meint brot Gunnars og Þórarins áttu sér stað. „Því er haldið fram að Guðlaugur Þór hafi verið eigandi Bogmannsins ehf. en það liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins. Það liggur hins vegar fyrir að Guðlaugur Þór var annar stofnenda Bogmannsins og varastjórnandi um langt skeið. Hann ætti einnig að geta upplýst hvort félagið hefði átt í viðskiptum við Landsbankann og upplýst um innborgun að fjárhæð 32,7 milljóna króna sem kemur fram á reikningsyfirliti [...] og þar með hvort sú innborgun sé frá Landsbanka Íslands eins og haldið er fram í ákæru.“

Þá benti Guðjón Ólafur á að í ákæru segði að Gunnar hefði aflað gagnanna og komið þeim til DV vegna þess að Guðlaugur hefði reynt að gera Gunnar tortryggilegan. „Það er rétt að mönnum gefist tækifæri til að spyrja vitnið Guðlaug Þór út í þau efni fyrir rétti.“

Ennfremur sagði Guðjón að Ágústa hefði verið eini stjórnarmaður Bogmannsins og gæti því gert grein fyrir viðskiptum félagsins við Landsbankann. 

Almannahagsmunir vikið þagnarskyldu til hliðar

Guðjón Ólafur sagði að Gunnar hygðist með því að leiða vitnin fyrir dóm varpa ljósi á þrjú atriði. „Í fyrsta lagi vísar ákærði til þess að það er með öllu óljóst að afhent hafi verið gögn eða skjöl úr bókhaldi Landsbanka Íslands, það liggur ekkert fyrir um það.“ Hann vísaði því næst til tveggja skjala sem eru á meðal gagna málsins og geti komið til greina sem umrædd skjöl. „Hvorugt skjalið ber það með sér að Landsbankinn hafi greitt umrædda upphæð inn á reikning Bogmannsins ehf. Af þessum sökum er nauðsynlegt að leiða vitnin fyrir dóminn og spyrja út í þessa færslu. Það er byggt á því af hálfu ákæruvaldsins að þessi fjárhæð hafi verið greidd af Landsbankanum og vegna tiltekinna viðskipta.“

Í öðru lagi sé það verknaðarlýsing og málavaxtalýsing sem miðist við að það hafi átt sér stað einhver viðskipti. „Þannig er ákærða [Gunnari] bæði gefið að sök að hafa fengið meðákærða til að afla gagna um viðskipti og einnig að hafa gert þetta í því skyni að skapa umræðu um viðskipti Bogmannsins og Landsbankans. Það liggja engin gögn fyrir um þessi viðskipti og yfir höfuð alls óvíst að það hafi átt sér stað einhver viðskipti.“

Þriðja atriðið sem Guðjón Ólafur nefndi var að ef svo ólíklega færi að ákærðu hefðu brotið gegn lögum með háttsemi sinni þá væri byggt á því af hálfu Gunnars að almannahagsmunir hefðu vikið þagnarskyldu hans til hliðar í umræddu tilviki. „Ég vek athygli á því að Gunnar stóð í þeirri trú, eða hafði grun um, að refsiverð háttsemi kynni að hafa átt sér stað við millifærslu Landsbankans til Bogmannsins ehf., eins og kom fram í framburði hans hjá lögreglu. Það er því mikilvægt að leidd verði fyrir dóminn vitni sem geta borið um þessi viðskipti, hvort þau hafi átt sér stað, hvers eðlis þau voru og hvað bjó að baki greiðslunni.“

Ekki hægt að velja sér sakarefni

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari krafðist þess að umræddum vitnaleiðslum yrði hafnað með úrskurði dómara. Hann sagði sama viðfangsefni hafa komið upp áður þegar verjandi Gunnars fór fram á að ákæruvaldið aflaði tiltekinna upplýsinga um gögn og viðskipti Landsbankans við Bogmanninn. Hann sagði sömu sjónarmið eiga við um þetta álitamál og vísaði til dóms Hæstaréttar sem hafnaði kröfunni.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að ekki voru færð viðhlítandi rök fyrir því að þau gögn og upplýsingar, sem  farið var fram á að aflað yrði, gætu haft þýðingu við  málsvörn Gunnars.

Helgi Magnús sagðist verða síðasti maður til að reyna hefta vörn eða koma í veg fyrir að Gunnar gæti varið sig. Málið sneri hins vegar ekki að umræddum viðskiptum. Það sneri að broti gegn þagnarskyldu, að því að Gunnar beitti sér fyrir því að upplýsingum um tiltekna peningafærslu var komið til blaðamanns DV. Umrædd viðskipti væru algjörlega ótengd sakarefni málsins og því gæti ekki komið til álita að leiða fyrir dóminn vitni sem einungis ættu að bera um þau.

„Hann gat komið þessum upplýsingum til lögreglu, en ekki til fjölmiðla eins og ákært er fyrir. Þetta var ekki neyðarréttur manns að koma á framfæri grunsemdum sínum,“ sagði Helgi Magnús.

Þá sagði hann að ef það væri nauðsynlegt fyrir málið að fram kæmu upplýsingar um viðskipti Landsbankans við Bogmanninn þá hefði Hæstiréttur gert ákæruvaldinu að afla þeirra gagna. Það væri einfaldlega ekki í lagi að velja sér annað sakarefni en fjallað væri um í ákæru. Fyrir dóminn kæmu vitni sem ekki væri ágreiningur um og gætu borið um hvort tiltekin skjöl stöfuðu frá Landsbankanum.

Að loknum ræðum var málið tekið til úrskurðar og verður hann kveðinn upp á næstunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka