Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að heimila Orkuveitu Reykjavíkur að selja fasteignir félagsins að Bæjarhálsi og Réttarhálsi, betur þekktar sem Orkuveituhúsið.
Fram kemur í tilkynningu, að Reykjavíkurborg hafi fyrir sitt leyti heimilað Orkuveitu Reykjavíkur að ganga að tilboði Straums fjárfestingarbanka hf. sem hljóði upp á 5,1 milljarð króna. Bakhjarlar tilboðsins séu lífeyris- og verðbréfasjóðir.
Að auki heimili borgarstjórn OR að leigja fasteignirnar af Straumi fyrir 223,9 milljónir króna á ári fyrstu tíu árin og á 290,2 milljónir næstu tíu árin eftir það.
Í kaupsamningnum sé kaupréttarákvæði sem heimilar OR að kaupa eignirnar til baka að liðnum 10 eða 20 árum.
„Salan er liður í Planinu svokallaða sem sett var upp til að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur frá margvíslegum rekstrarvandræðum. Planið hefur gengið mjög vel upp og mun betur en áætlanir gerðu ráð fyrir að undanskilinni sölu eigna. Sala fasteignanna þýðir að öll markmið Plansins ganga eftir.
Í umsögn Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um söluna segir m.a. að það sé mat hennar að salan bæti lausafjárstöðu fyrirtækisins verulega, hún muni auka trú fjármálafyrirtækja á Planinu að nýju sem hafi mjög jákvæð áhrif á fjármögnunarmöguleika Orkuveitu Reykjavíkur.
Þá segir í umsögninni að salan styrki greiðsluhæfi á árinu 2013 en stór lán koma til greiðslu á þessu ári. Í umsögninni er tekið fram að salan endurspegli markaðsvirði eignanna þar sem verðtilboðið hljóði upp á 5,1 milljarð króna en bókfært virði eignanna sé 4.438 milljónir. Kjörin á leigusamningnum með kaupréttarákvæðum séu einnig viðunandi,“ segir í tilkynningu.