„Fyrst og síðast verður að segja að málið einkennist af taugaveiklun, af pólitískri taugaveiklun og Kanafóbíu að vissu leyti í þessu máli öllu þegar menn fara yfir þetta,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag þar sem hún gerði að umtalsefni sínu framgöngu íslenskra ráðamanna vegna rannsóknar bandarísku alríkislögreglunnar FBI hér á landi í ágúst 2011.
Þorgerður sagði það alvarlegt að stjórnvöld hefðu gripið inn í rannsókn lögreglumáls. Réttarstaða manns sem FBI hefði verið að rannsaka hér á landi hefði verið gerð verri vegna inngrips utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, og innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem beittu sér fyrir því að rannsókn bandarísku lögreglumannanna í samstarfi við innlend lögregluyfirvöld yrði stöðvuð.
„Það hefði verið betra í alla staði ef íslensk lögregla hefði, því þetta var ekki yfirheyrsla, verið viðstödd á hlutlausu svæði og stýrt samtalinu sem FBI hefði þurft að eiga við þennan tiltekna Íslending,“ sagði hún. Þetta hefði komið fram á sameiginlegum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og allsherjar- og menntamálanefndar í morgun og hefði verið undirstrikað af ríkissaksóknara. Utanríkisráðherra hefði hins vegar komið í veg fyrir að þannig væri staðið að málum.
Sjálfstæði ríkissaksóknara og lögreglu ógnað?
Það alvarlegasta væri hins vegar inngrip innanríkisráðherra í hið sjálfstæða ákæruvald og rannsóknarvald sem væri í höndum ríkissaksóknara og lögreglu landsins að sögn Þorgerðar. „Á það að vera þannig hverju sinni að pólitískt mat hvernig heimsmálin standa hverju sinni, að þá ætli innanríkisráðherra, eða eftir atvikum utanríkisráðherra hæstvirtir, að skipta sér af rannsókn mála?“
Hún sagði að skýrt hefði komið fram af hálfu ríkissaksóknara að farið hefði verið að öllum lögum og reglum vegna samstarfsins við FBI, íslenskum og erlendum. „FBI var að þeirra mati hér með fullu samþykki og heimild á grundvelli réttarbeiðni lögum samkvæmt en það var inngrip innanríkisráðherra sem stuðlaði að því að við þurfum að fara betur yfir það hvort sjálfstæði ríkissaksóknara og lögreglunnar sé einhvern veginn ógnað.“